Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar hefur samþykkt á fundi sínum miðvikudaginn 7. nóvember 2018 að útnefna Hólmfríði Vídalín Arngrímsdóttur sem Bæjarlistamann Fjallabyggðar 2019.

Hólmfríður er fædd í Reykjavík og hefur búið í Ólafsfirði frá árinu 1976 og hefur starfað að myndlist með leir sem aðalefni í 28 ár.
Á árunum 2009  – 2012  stundaði hún nám við keramikdeild Århus kunstakademi í Danmörku. Frá árinu 2016 hefur hún stundað nám í  myndlist við Menntaskólann á Tröllaskaga.

Hólmfríður hefur tekið þátt í samsýningum í Danmörku og á Íslandi í Reykjavík, á Akureyri og Dalvík. Hún átti verk á sýningunni Keramik í Listasafni Árnesinga, sem sett var upp í tilefni 35 ára afmæli Leirlistafélags Íslands árið 2016. Hólmfríður er félagi hinum ýmsu félagasamtökum s.s. SÍM félag myndlistamanna, Leirlistafélagi Íslands, Myndlistafélagi Akureyrar, Handverk og Hönnun og Kunsthåndværkere og Designere.

Hólmfríður rekur keramikverkstæði í Ólafsfirði og tók einnig um tíma þátt í rekstri gallerísins Kaolin í Reykjavík.

Hólmfríður vinnur aðallega við gerð skúlptúra og einstakra nytjahluta en frá 2018 hefur hún eingöngu unnið skúlptúra úr verkum sem hafa misheppnast í vinnslu,  gefið þeim nýtt líf og bætt. Til þess notar hún ólík efni eins og nagla, vír, hænsnanet o.fl.  Innblásturinn af vinnu sinni fær hún innra með sér og frá hinni öfgafullu náttúru Íslands. Hver hlutur í listaverkum Hólmfríðar er einstakur í bæði áferð og formi enda spilar hún með bæði liti,  glerunga og brennslu þar til hún sér jafnvægið í verkinu.

Bæjarlistamaður Fjallabyggðar verður útnefndur í Menningarhúsinu Tjarnarborg fimmtudaginn 24. janúar 2019  kl. 18:00. Við sama tilefni verða afhentir menningarstyrkir Fjallabyggðar fyrir árið 2019.

Fjölmargar tilnefningar bárust og þakkar markaðs- og menningarnefnd kærlega fyrir þær.

Óskum við Hólmfríði til hamingju með titilinn Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2019.

 

Frétt og mynd: Fjallabyggð