Fjallaskíðamótið “Super Troll Ski Race” verður haldið í fimmta sinn í Siglufirði um næstu helgi 11.-13. maí. Metfjöldi þátttakenda er skráður til leiks að þessu sinni enda fjallaskíðaíþróttin í mikilli sókn hérlendis. Að þessu sinni verða tvær leiðir í boði um fjöllin innan Siglufjarðar. 15 km. leiðin er  fyrir lengra komna og svo verður farin 8km leið fyrir þá sem vilja kannski fara hægar yfir en reyna samt vel á sig.
Tímataka verður á báðum leiðum og vegleg verðlaun fyrir fyrstu 3 sætin á hvorri leið. Verndari mótsins er Tómas Guðbjartsson læknir og mun hann fylgja keppendum á styttri leiðinni.
Keppnin mun hefjast við gangnamunna Héðinsfjarðarganga í Siglufirði kl 12:00 á laugardag og eru allir velkomnir að fylgjast með keppninni.
Skíðaður verður hringur inn í Skútudal og mun endamark á styttri vegalengdinni verða í Hólsdal rétt norðan Stíflu en lengri leiðin liggur síðan um botn Siglufjarðar og endar við skíðaskálann í Skarðsdal.
Skráningu á mótið lýkur á miðvikudag á www.stsr.is
Allur ágóði af mótinu rennur til barna og unglingastarfs Skíðafélags Siglufjarðar.
Hvetjum alla sem hafa áhuga að fylgjast með spennandi keppni. Ef aðstæður leyfa verður sent út beint frá mótinu á facebook síðu mótsins https://www.facebook.com/supertrollskirace/
Texti og myndir: aðsent