Forsvarsmenn Fjarðargöngunnar sem fram fer í Ólafsfirði laugardaginn 9. febrúar hafa í nógu að snúast. Ákveðið hefur verið að leggja göngubrautina í bænum og vegna þess verður truflun á umferð í efri byggð bæjarins og eru íbúar, Hornbrekkuvegar, Túngötu og Hlíðarvegar beðnir um að sýna þessu skilning og nýta sér Brimnesveg og gatnamót Brekkugötu í staðinn. Hornbrekkuvegur og Þverbrekkuvegur verða lokaðir á meðan á keppni stendur.
Fjarðargangan byrjaði 1984 og á því 35 ára afmæli núna.
Fjarðargangan 2019 verður laugardaginn 9. febrúar, og það fer ekki framhjá neinum að það verður metþátttaka í ár.
Keppendur eru 150, bæði börn og fullorðir, og flest aðkomufólk. Skráningu átti að ljúka 7. febrúar, en lauk í raun 2. febrúar, þar sem uppselt varð í gönguna. Langur biðlisti er kominn og enn verið að skrá sig á þann lista í dag. Ákveðið var að hafa hámarksfjölda 150, en 64 tóku þátt í fyrra og er þetta því stórt stökk í fjölda þátttakenda.
Dagskráin hefst með fundi kl.20:00 í kvöld, föstudagskvöld, í skíðaskálanum við Tindaöxl og þar verða afhent keppnisgögn.
Á morgun, laugardag, hefst afhending mótsgagna í Íþróttahúsinu kl.08:00.
Keppni verður svo ræst kl.11:00 og er áætlað að henni ljúki um kl.15:00 – 16:00. Þá tekur við kaffisamsæti fyrir keppendur og starfsfólk, í Menningarhúsinu Tjarnarborg, og er búist við að um 200 manns mæti þar í kaffi.
Um kvöldið verður svo haldið lokahóf í Tjarnarborg með öllu tilheyrandi.
Áhersla er lögð á að brautin henti trimmurum betur en reyndu keppnisfólki, þannig er reynt að forðast krappar beyjur í rennslum og reynt að hafa brautina frekar í léttari kanntinum.
Ákvörðun hefur verið tekin um að færa gönguna niður í Ólafsfjarðarbæ, í orðsins fyllstu merkingu.
Snjóflóðahætta er á Skeggjabrekkudal og því ekkert vit að vera að þvæla þátttakendum þangað. Því verður ræst í miðbæ Ólafsfjarðar við Íþróttahúsið og er ræst til norðurs.
Meðfylgjandi myndir sýna hringinn sem er 10km. Ef myndirnar eru skoðaðar vel sést að einnig verður gengið á götum bæjarins, Aðalgötu og Brekkugötu. Lokanir og umferðartakmarkanir munu því verða í Ólafsfirði á laugardaginn.
Aðstandendur göngunnar telja að þetta sé í fyrsta skipti á Íslandi sem gengið er í almenningsgöngu innanbæjar, allavega í Íslandsgöngu þó þetta þekkist í nokkrum göngum erlendis. Vonast er til að stemmingin verði meiri í kringum gönguna fyrir vikið, og allir njóti í botn á laugardaginn.
Ræst verður við Íþróttahúsið á Ólafsfirði og gengið til norðurs að menningarhúsinu Tjarnarborg. Fyrstu 3 km brautarinnar liggja innan bæjarmarka Ólafsfjarðar og gengið er eftir Aðalgötu, Brekkugötu og nokkrar götur í bænum þveraðar. Þar liggur leiðin um Bárubraut, yfir þjóðveg við Hlíð og meðfram Ólafsfjarðarvatni. Hringurinn er 10km en keppt verður í 30 km, 15 km og 5 km.
Mikil tónlist og húllum hæ verður í bænum á meðan á keppni stendur.
Bæjarbúar hafa verið að vinna að þessum viðburði í langan tíma og eru sjálfboðaliðar sem vinna á mótinu sjálfu, um 50 manns.
Frekari upplýsingar:
https://www.facebook.com/