Fjarðarhlaupið fer fram laugardaginn 16. ágúst og verður það haldið í fimmta sinn. Í ár bætast tveir nýir viðburðir við dagskrána.

Auk hefðbundinna vegalengda verður boðið upp á gönguferð í samstarfi við Ferðafélagið Trölla, þar sem gengin er sama leið og í 18 km fjallahlaupinu. Gengið verður niður Héðinsfjörð frá gangnamunna, inn Víkurdal, yfir Rauðskörð og niður Syðriárdal, með Maríu B. Leifsdóttur sem fararstjóra.

Einnig verður í boði nýtt 12 km utanvegahlaup fyrir þá sem vilja léttari leið. Hlaupið hefst á Kleifum í Ólafsfirði og liggur inn Syðriárdal, yfir ána og til baka að endamarki við Kaffi Klöru í miðbænum.

Á dagskránni eru jafnframt 32 km og 18 km fjallahlaup, skemmtiskokk, barnahlaup og gönguferð frá Héðinsfirði yfir Rauðskörð. Veitt verða verðlaun fyrir fyrstu þrjú sæti í 32 km, 18 km og 12 km hlaupum. Allir þátttakendur fá veitingar við endamark, þátttökuverðlaun og eiga möguleika á útdráttarverðlaunum.

Nánari upplýsingar og skráning eru á netskraning.is/fjarðarhlaupið.

Mynd/Fjarðarhlaupið