Á 330. fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar þann 15. desember 2020 var síðari umræða um tillögu að starfs- og fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024.
Helstu niðurstöður eru áætlaðar eftirfarandi:
Rekstrarniðurstaða Samantekið A- og B- hluti er neikvæð um tæpar 51 m.kr. árið 2021.
Rekstrarniðurstaða Aðalsjóðs er áætluð neikvæð um rúmar 176 m.kr. fyrir sama ár og rekstrarniðurstaða A-hluta (Aðalsjóður og Eignasjóður) er neikvæð um rúmar 56 m.kr.
Tekjur Samantekið A- og B- hluta eru um 2,5 milljarðar, þar af eru tekjur Aðalsjóðs um 2,1 milljarðar og um 1,2 milljarðar af því eru skatttekjur í formi útsvars og fasteignaskatts.
Stærstu málaflokkar Aðalsjóðs eru fræðslu- og uppeldismál um 960 m.kr. eða 50,9% af áætluðum skatttekjum, æskulýðs- og íþróttamál um 349 m.kr. eða 18,5% af skatttekjum Aðalsjóðs og sama hlutfall félagsþjónustu er 14,5% eða um 274 m.kr. Aðrir málaflokkar eru því 16,1% af skatttekjunum.
Laun og launatengd gjöld fyrir Samantekið A- og B-hluta eru um 1,4 milljarðar fyrir árið 2021 með áætlaðri uppfærslu lífeyrisskuldbindinga.
Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum Samantekið A- og B-hluta fyrir árið 2021 eru áætlaðar um 142 m.kr. Stærstu liðir eru 40 milljóna framlag til endurbóta á Dalbæ, 10 milljóna framlag til uppbyggingar hjá Golfklúbbnum Hamri, 16 milljónir í endurnýjun götulýsingar 2. áfanga og 24,8 milljónir alls til gatnagerðaframkvæmda þar af 5,5 miljónir til sjóvarna. Í heild fara um 42 milljónir í viðhald Eignasjóðs og tæpar 23,5 miljónir í búnaðarkaup hjá stofnunum sveitarfélagsins.
Áætluð lántaka árið 2021 er 135 m.kr. og afborganir af lánum eru 60 m.kr. Langtímaskuldir í árslok 2021 eru um 894 m.kr. Veltufé frá rekstri samantekið fyrir A- og B-hluta árið 2019 er um 195 m.kr.
Framlegðarhlutfall Samantekið fyrir A- og B- hluta fyrir árið 2021 er 7,4% (viðmiðið er 15% og hærra), reiknað skuldaviðmið samkvæmt sveitarstjórnarlögum er 75,5% (leyfilegt hámark er 150%) og veltufjárhlutfallið er 1,11.
Á fundi sveitarstjórnar komu fram þakkir sveitarstjórnar til starfsmanna og stjórnenda fyrir vinnuna við gerð fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.
Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlunina veitir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri, í síma 4604902 eða í gegnum netfangið katrin@dalvikurbyggd.is