Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur gert nýjan samning við Icelandair um að tryggja lágmarksflug til Bandaríkjanna til og með 31. mars. Samningurinn gerir ráð fyrir að flogið verði minnst tvisvar í viku til Boston á tímabilinu. 

Markmiðið er sem fyrr að tryggja lágmarks flugsamgöngur til og frá landinu vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa í heimsfaraldri kórónuveiru.

Auglýst var eftir tilboðum á evrópska útboðsvefnum TED (Tenders Electronic Daily) áður en gengið var til samninga. Icelandair var eina flugfélagið sem gerði tilboð. Allar tekjur Icelandair af flugi til Boston munu lækka greiðslur vegna samningsins. Gert er ráð fyrir að hægt verði að framlengja samninginn ef ástæða þykir til.

Það voru Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sem undirrituðu samninginn með rafrænum hætti.

Mynd: Frá Keflavíkurflugvelli, Þórmundur Jónatansson

Skoða á vef Stjórnarráðsins