Púðurkerlingu / kínverja var stungið inn um bréfalúgu í Ólafsfirði s.l. föstudag.

Óvitar hafa þar trúlega verið að verki en betur fór en á horfðist þar sem gripurinn sprakk ekki, að sögn heimildarmanns.

Ástæða er til að minna foreldra á að fræða börn og unglinga um þá hættu sem slíkt athæfi hefur í för með sér, til dæmis ef púðrið kemst í pappír, sem oft liggur við póstlúgur, gæti hæglega komið upp eldur með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Björgunarsveitirnar selja ekki þessar púðurkerlingar eða kínverja í lausasölu, en í einhverjum tilfellum finnst þetta í blönduðum pökkum.