Leó Ólason

Alveg frá því að ég fór að muna almennilega eftir mér sem barn, hafa ísbirnir ásótt mig bæði í svefni og vöku. Það hafa þeir yfirleitt gert nokkuð reglulega, en stundum hefur samt orðið svolítið hlé á sem hefur staðið í besta falli í einhverja mánuði. Ég hef vitanlega mikið velt fyrir mér hver geti verið orsakavaldurinn og hvað hafi í upphafi getað komið allri þessari skelfingu af stað. Þrátt fyrir miklar vangaveltur hef ég ekki fengið neitt afgerandi svar við þeim hugrenningum mínum, en hef helst grun um að hin ægifagra Kanadíska náttúrulífsmynd “Gull og grænir skógar” gæti hugsanlega verið kveikjan að öllu saman. Hún var sýnd í Nýja Bíó á Siglufirði, líklega árið 1963 meðan ég var aðeins 7 ára gamall. Ég man enn vel eftir því hvað ég var hræddur marga daga á eftir og hvað mér fannst grimmdin vera óhugnanlega mikil úti í náttúrunni þarna á norðurslóðum.

Ég held að upp úr því hafi þær martraðirnar byrjað sem standa enn, næstum hálfri öld síðar. Mörg hundruð sinnum hef ég komist í kast við þessi stórhættulegu rándýr og verið við það að lenda í klóm þeirra, kjafti og síðan eflaust maga, þegar ég hef vaknað upp bullsveittur og fundist hjartað vera að reyna að berja sér leið út úr brjóstkassanum.
Það er ekki nóg með að þessi dýrategund ásæki mig í svefni, heldur gerir hún það í vöku líka. Oft þegar ég hef komið heim seint að kvöldi þegar myrkrið, kuldinn og nóttin hafa umlukið mig, hef ég oftlega litið flóttalega í kring um mig og skimað eftir því hvort einhver slík skepna væri að læðupókast í nágrenninu. Þetta hefur þá gjarnan valdið einhverjum titringi í sál og jafnvel líkama og mér hefur í framhaldinu gjarnan gengið bölvanlega að koma lykli í skráargat og opna mér leið inn í hlýjuna og öryggið. Svokölluð dómínóáhrif hafa þá orðið til þess að ég hef orðið enn smeykari við umhverfið, sem orskakar svo auðvitað meiri titring og lykillinn hittir enn síður í skrána o.s.frv.

Þetta hefur reyndar ekki eingöngu verið bundið við birni, því ljón, tígrisdýr og önnur stór dýr hafa einnig hrellt mig í bland við Bjössa þó hann hafi verið langsamlega skæðastur.

Tilfinningin sem ég upplifði t.d. þegar ég sá Jurassic park var eins og bergmál aftur úr fortíðinni. Risaeðlurnar ógurlegu sem hrelldu mig fyrst í kvikmyndasalnum, voru einnig óþægilega nálægt mér í huganum um langan tíma eftir að sýningin var afstaðin. En strax eftir myndina staldraði ég alllengi við í útgöngudyrunim og horfði rannsakandi, ef líka svolítið flóttalega yfir bílastæðið. Mér fannst bíllinn óralangt í burtu og ég hefði alveg mátt leggja honum miklu nær. Það voru flest allir farnir þegar ég hleypti í mig kjarki og hálfhljóp við fót áleiðis að ímynduðu skjólinu með bíllykilinn því sem næst á undan mér.

Ástæðan fyrir þessum vangaveltum mínum núna, eru fréttir undanfarna daga þess efnis að mikill hafís sé fyrir norðan og vestan landið. Þá benda veðurspár til þess að hann eigi hugsanlega eftir að nálgast strendur þess á næstunni.Ég fór auðvitað stutta kynnisferð um vefinn með aðstoð google.is

(Vísindavefurinn)

Hvað deyja margir á ári eftir árás ísbjarna?

Það eru aðallega þrjár bjarnategundir (Ursus sp.) sem ráðast á menn og valda þeim tjóni, svartbirnir, skógarbirnir og ísbirnir. Svartbirnir (U. americanus) urðu 52 manneskjum að bana á tímabilinu frá 1900 til 2003. Að jafnaði drápu svartbirnir þess vegna einn mann á tveggja ára fresti. Svipaður fjöldi hefur látið lífið vegna árása skógarbjarna (U. arctos) eða 50 manns á 103 ára tímabili.
Ísbirnir (U. maritimus) eru yfirleitt taldir vera hættulegastir allra bjarna. Engu að síður hafa þeir aðeins drepið fimm manns svo vitað sé á fyrrnefndu 103 ára tímabili. Það er þó rétt að taka þeirri tölu með fyrirvara, því hér að aðeins um Vestulandabúa að ræða. Ekki eru til nægar heimildir um hversu margir inúítar hafa látið lífið vegna árása hvítabjarna.
Enn fremur þarf að hafa í huga að svartbirnir lifa á mun þéttbýlli svæðum en skógarbirnir og ísbirnir, auk þess sem stofnstærðin er margföld á við hinar tegundirnar eða um hálf milljón dýr. Skógarbirnir eru nú sennilega í kringum 200 þúsund talsins en hvítabirnir í kringum 25 þúsund dýr. Einnig er rétt að hafa í huga að hvítabirnir lifa á einum afskekktustu svæðum jarðar, þar sem lítið er um menn.
Ef við höldum áfram að leika okkur með tölfræðina þá má ætla að einn maður hafi verið drepinn af hverjum 9.600 svartbjörnum, 5.000 hvítabjörnum og 4.000 skógarbjörnum. Þessar tölur eiga reyndar aðeins við ef við gefum okkur að stofnstærð tegundanna hafi verið stöðug undanfarin 103 ár. Það er hins vegar ekki raunin því hvítabjörnum fækkaði nokkuð fram að friðun þeirra á 7. áratug síðustu aldar en hinar tegundirnar hafi frekar vaxið frá þarsíðustu aldamótum. Auk þess hefur mönnum fjölgað verulega á umræddu tímabili.Eftir árás hvítabjarnar

Ég hef oft heyrt söguna um björninn sem réðist að bæ Reyðarárbónda á öldum áður og drap það allt kvikt. Sagan virðist hana lifað sem munnmælasaga allt fram á okkar daga og virðist vera til í nokkrun útgáfum þó grunnurinn sé hinn sami. Skýringin er væntanlega sú að hún gæti vel hafa lifað og dafnað svolítið sjálfstæðu lífi á nokkrum stöðum í sókninni. Og þar sem samgöngur hafa löngum verið minni en síðar urðu, hefur sagan tekið lítilsháttar breytingum í mismunandi áttir.

Hér fara á eftir nokkrar útgáfur.

sagnagrunnur.raqoon.com

Sagan segir að í fyrndinni hafi Reyðarárbóndi komið af sjó og fundið bæinn brotinn og konu sína og börn látin og limlest eftir hvítabjörn. Rann á bónda æði, elti slóð dýrsins og fann það austur í Hesti (Hestfjalli 586 m). Bangsi forðaði sér og slapp naumlega undan broddstaf bónda með því að stinga sér niður snarbratta gjá sem síðan heitir Bangsagjá.

sagnagrunnur.raqoon.com

Hestur heitir fjall milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar, upp í fjallinu er djúp gjá, kölluð Bangsagjá. Reyðará hét fyrrum bær á Siglunesi, þar bjó eitt sinn bóndi með konu og börnum. Einhverju sinni er hann kom af sjó að vetrarlagi lá mannsfingur á hlaðinu og er inn í bæinn kom voru konan og börnin þar sundurtætt. Grunaði bónda hvers kyns vera mundi, hljóp út með byssu og sá björninn. Tók dýrið á rás og elti bóndi það til fjalls. Rétt um það er björninn stóð á gjárbarminum fékk hann banaskotið og steyptist ofan í. Heitir þar síðan Bangsagjá.

fjallabyggd.is

Milli Héðinsfjarðar og Siglufjarðar er eyðikot sem heitir Reyðará. Þar bjuggu hjón er áttu eitt barn. Vetur þann, er sagan gerðist, voru ísalög mikil og hafði orðið vart við bjarndýr. Eitt sinn þurfti bóndi að bregða sér út á Siglufjörð til að sækja mat. Þegar hann kom heim aftur sá hann bjarndýr ganga frá bænum. Þar inni var allt brotið og bramlað og ekki annað eftir af konu hans og barni en annar handleggurinn af konunni. Maðurinn hljóp á eftir bjarndýrinu með gæruhníf. Bjarndýrið hlóp út á ísinn en snéri svo aftur að landi og hljóp upp gjá, sem er utan til við Hestinn og heitir Bangsagjá. Dýrið nam staðar á brúninni og prjónaði upp framfótunum, en talið er að þá sé bjarndýrið að biðjast vægðar. Bóndinn drap það.

Mbl. 19.3. 2006

ÍSBJÖRN réðst á grunnbúðir níu breskra fjallgöngumanna við Gunnbjörnsfjall á Austur-Grænlandi seint að kvöldi laugardagsins 11. mars síðastliðins. Þeim tókst að fæla björninn frá búðunum og sluppu óskaddaðir. Björninn gjöreyðilagði eitt tjald af fimm og felldi tvö önnur. Twin Otter-skíðaflugvél Flugfélags Íslands, undir stjórn Bjarka Hjaltasonar flugstjóra, sótti leiðangursmennina á Grænlandsjökul síðastliðinn sunnudag og flutti þá hingað til lands.

Þykir mjög óvenjulegt að ísbjörn skyldi leggja leið sína á þessar slóðir í Watkinsfjöllum, í meira en 2.000 metra hæð yfir sjó og 60 km frá ströndinni í beina loftlínu.


Pressan 30. júl. 2010

Stærðarinnar ísbjörn ruddist inn í tjald útilegumanna – “Hann ætlaði að éta okkur lifandi”

Stærðarinnar ísbjörn hugðist gæða sér á tveimur norskum karlmönnum á Svalbarða á dögunum. Mennirnir voru í mikilli ævintýraferð og átti sér einskis ills von þegar björninn reif upp tjaldið og reif annan þeirra út. Maðurinn stórslasaðist.

Félagi mannsins var snöggur að hugsa og þreif riffil sem þeir höfðu tekið með sér. Fimm riffilskot þurfti til að deyða ísbjörninn sem var frekar ófrýnilegur þegar hann ruddist inn í tjaldið.

Á vef hins Íslenska náttúrufélags er að finna svolítinn fróðleik um ísbirni.

Á síðustu öld sáust hér á milli 50 og 60 dýr. Flest þeirra sáust á fyrsta þriðjungi aldarinnar, þar af 27 í 18 tilvikum frostaveturinn mikla 1918. Mörg þessara dýra hurfu aftur, syndandi eða gangandi, út á hafísinn sem þá lá við land, en sum voru drepin.
Árið 1932 var ísbjörn felldur í Drangavík og annar fannst sjórekinn í Veiðileysufirði á Ströndum. Eftir það liðu ríflega þrír áratugir þar til aftur varð vart við ísbirni á landinu en í júní 1963 felldu eggjatökumenn gamla birnu í Hornvík. Þremur árum síðar fannst sjórekinn ísbjörn með molaðan haus í Þaralátursfirði og 1968 fundust hræ tveggja dy´ra rekin á fjörur (Þórir Haraldsson, munnl. uppl.). Þrír ísbirnir til viðbótar voru felldir hér á landi til loka aldarinnar. Sá fyrsti var stór, fullorðinn björn sem felldur var í Grímsey 1969, sá næsti var felldur í Fljótavík á Hornströndum 1974 og sá þriðji var ríflega ársgamall undanvillingur sem felldur var í febrúar 1988 í Fljótum í Skagafirði. Tvö dy´r til viðbótar voru drepin eftir að hafa sést á sundi; birna sem skotin var í byrjun júní 1975 á Grímseyjarsundi og karldy´r á sjöunda ári sem fiskveiðimenn aflífuðu þegar þeir hífðu það um borð í bát í lok júní 1993 skammt frá ísjaðrinum 70 mílur norður af Horni.

Á aba.is er að finna…

Sagt var um Jóhann Bessason (1839 – 1912) sem bjó ásamt konu sinni Sigurlaugu Einarsdóttur á Skarði í Dalsmynni, að hann hafi svarað vel til hugmynda manna um útlit og atgervi Egils Skallagrímssonar. Hann var manna vaskastur, víðkunnur að fimleik, afli, dirfsku og allri karlmennsku. Mikilúðlegur var hann ásýndum með alskegg niður á bringu og út á axlir.

Jóhann var járnsmiður góður og er hann var að hamra hákarlaskálm í smiðju sinni árið 1881 teygði ísbjörn óvænt hvítan hausinn inn um dyragættina.

Flestum hefði brugðið við þessa sýn en Jóhann lét sér fátt um finnast og snaraðist á móti bangsa með rauðglóandi skálmina. Bangsi hopaði undan og barst leikurinn eftir hlaðinu á Skarði, niður túnið, ofan fyrir brekkur og niður að Fnjóská, sem rann á milli skara. Þar skildu leiðir þegar bangsi stakk sér í ána og má ætla að hann hafi kosið ískalt vatnið fremur en stungusár með sjóðheitu járninu.

Mbl.is 3.6.2008

Ísbjörn við Þverárfjall

Lögreglan á Sauðárkróki hefur fengið fjórar tilkynningar um að fólk hafi séð ísbjörn við Þverárfjallsveg, milli Sauðárkróks og Skagastrandar. Lögreglan er að fara á staðinn og kanna hvort þetta er rétt. Þórarinn Leifsson, bóndi á Keldudal í Skagafirði er einn þeirra sem sá ísbjörninn.

“Ég var á leið vestur í Húnavatnssýslu rétt fyrir tíu í morgun, og sé fullvaxinn ísbjörn labba meðfram veginum til austurs, nálægt skagaafleggjaranum, hann var bara að labba í rólegheitunum að njóta góða veðurins,” sagði Þórarinn í samtali við mbl.is.

Að sögn Þórarins voru ísjakar á Húnaflóanum í vetur og gæti ísbjörninn því hafa verið hér í einhvern tíma.


Fréttin um björninn á Þverárfjalli vakti auðvitað mikla athygli um leið og hún birtist. En ökumaðurinn sem ók fram á hann sagði líka frá því að skömmu áður en Bjössi varð á vegi hans hafi hann farið fram úr túrista á reiðhjóli sem var á sömu leið. Það fór ekki hjá því að maður velti fyrir sér hugsanlegum örlögum hans ef hann hefði verið svolítið fyrr á ferðinni.
 

Það varð auðvitað frægt þegar Þráinn Bertelson hélt því blákalt fram í útvarpsviðtali fyrir nokkru að 5% þjóðarinnar væru í raun fávitar og það yrði því að reyna að halda slíkum einstaklingum utan við umræðu ef það ætti að reyna að hafa hana vitræna að einhverju marki. Ég get ekki neitað því að þegar maður les eftirfarandi kemur hlutfallið 5%  svolítið upp í hugann.


Mbl.is 3.6.2008
“Skaðar alþjóðlega ímynd landsins”

“Ég er hneyksluð á því hvernig var tekið á þessu máli,” segir Ingiveig Gunnarsdóttir, leiðsögumaður og ráðgjafi sem sérhæfir sig í vistvænni ferðamennsku, og starfar hjá Excellentia ferðamiðlun og ráðgjöf, og vísar hún í hvernig staðið var að málum þegar ísbjörn var felldur við Þverárfjallsveg laust fyrir hádegi í dag. 

Að sögn Ingiveigar eru hvítabirnir í mikilli útrýmingarhættu og því veki þessi atburður í morgun óhug hjá henni og segir hún það ekki sæma þjóð sem státar af ósnortinni náttúru og því að standa framarlega í umhverfismálum, að sýna slíka óvirðingu fyrir villtu dýralífi.  Umhverfisráðherra verður að gefa skýringar og sæta ábyrgð, segir Ingiveig. 

“Hvaða vald getur umhverfisráðherra tekið sér þegar um er að ræða dýrategund sem er í útrýmingarhættu.  Það hefði verið hægt að bjarga dýrinu, af hverju var ekki talað við dýralækni, af hverju var þessi ákvörðun tekin án þess að málið væri krufið til mergjar,” segir Ingiveig og bætir við að þessi viðbrögð stjórnvalda sýni virðingarleysi fyrir náttúrunni og villtu dýralífi.

Ingiveig segir enga virka stefnumótun um dýravernd á Íslandi og segir ákvarðanatöku íslenskra yfirvalda skaða alþjóðlega ímynd landsins.  Dýraverndunarumræða sé mjög heit í alþjóðasamfélaginu um þessar mundir, og sem leiðsögumaður og skipuleggjandi ferða umhverfis- og náttúruverndarsamtaka um Ísland segir hún starfsfólk innan ferðaþjónustu hafa áhyggjur af því hvernig þessi mál koma til með að þróast.  “Ef stjórnvöld hefðu tekið ábyrgð á þessu máli og kynnt sér málið áður en dýrinu var útrýmt, hefði það spurst út í alþjóðasamfélagið og verið mjög jákvætt fyrir okkur,” segir Ingiveig.

En það var gerð athugasemd við þessa frétt sem er líklega ekkert skrítið.
Bjössi friðaður, – ekki Skagfirðingar!
Undarleg umræða.  Þarna var ísbjörn á leið í áttina að fólkinu.  Það þurfti því að velja á milli hans og fólksins.  Átti að láta hann vaða á hópinn á þeim forsendum að Bjössi væri friðaður en ekki Skagfirðingar?  Þetta er fáránleg umræða.

Hins vegar eins og umhverfisráðherra segir er mikilvægt að lögregluembætti á Norðurlandi séu græjuð til að takast á við svona gesti.  Þeir hafa átt leið hérna í gegn í aldir og ekki ástæða til annars en að vera klár í slaginn.

Mbl. 27.7.2008Líka hneykslast á ísbjarnardrápi 1974Það er ekkert nýtt að hneykslast á hvítabjarnardrápi á Íslandi, að sögn Herborgar Vernharðsdóttur, sem býr í Atlatungu í Fljótavík á sumrin.Frægt er þegar Ingólfur Eggertsson, eiginmaður hennar, varð ásamt Jóni Gunnarssyni og Helga Geirmundssyni á vegi hvítabjarnar í Fljótavík vorið 1974. “Þeir voru að gera við jeppa fyrir utan neyðarskýlið,” segir Herborg. “Þá heyrðu þeir hnusið í birninum, sem stóð rétt fyrir aftan þá, jafn undrandi og þeir. Þeir hlupu inn í skýlið, en einn stökk út til að ná í byssuna sem lá fyrir utan. Hann mölvaði rúðuna og skaut björninn. Þeir voru logandi hræddir því synir mínir á unglingsaldri voru væntanlegir á hverri stundu að sækja þá í kaffi.”

Og þá var hneykslast á því að hvítabjörninn væri drepinn. “Þegar Ingólfur var spurður af hverju hann hefði drepið björninn, þá svaraði hann: “Áttum við að bjóða honum að éta okkur?” 


Mbl.is 16.6.2008

Ísbjörn í æðarvarpi

Ísbjörninn sem sást við Hraun á Skaga, ysta bænum í Skagafjarðarsýslu, er enn við bæinn en hann hefur komið sér fyrir í æðarvarpi heimilisfólksins. Æðarvarpið er í um 300 metra fjarlægð frá íbúðahúsinu að Hrauni og sást fyrst til hans um hádegisbilið og vappar hann nú milli hreiðra og étur egg, samkvæmt upplýsingum frá heimilisfólki.

Merete Kristiansen Rabölle,  húsmóðirin á bænum, var í morgun úti í æðarvarpinu og varð ekki vör við ísbjörninn þá. Eins voru börnin úti í fjárhúsum að taka til eftir sauðburðinn og varð enginn var við ísbjörninn fyrr en um hádegisbilið er hundurinn á bænum rauk út geltandi og gjammandi. Dóttir Merete, Karen Helga Steinsdóttir, reyndi að ná hundinum en tókst ekki en sá hins vegar ísbjörninn og lét annað heimilisfólk vita. Grænlenskum vinnumanni tókst síðan að ná hundinum heilum á húfi inn í hús.

Að sögn Merete ráfar björninn um og borðar upp úr hreiðrum og er allt æðarvarpið í hættu. Hann virðist þó vera rólegur því hann lagði sig áðan í miðju varpinu.

Þá hefur og gengið þrálátur orðrómur um að þriðji björninn hafi verið felldur vorið 2008 skammt norðan við Skagaströnd. Ég hef m.a. rætt við mann sem fullyrðir að svo hafi verið, en sá er mikill skot og veiðimaður. Hann nafngreindi þann sem á að hafa unnið á birninum sem hann sagðist þekkja persónulega og lýsti síðan fyrir mér atvikum á mjög sannfærandi hátt. Sá á að eiga hauskúpu bjarnarins hangandi upp á vegg heima hjá sér og hafa fengið hana að launum fyrir verkið. Það fylgdi einnig þessari frásögn að yfirvöld hefðu lagt mikið kapp á að ekkert læki til fjölmiðla “til að gera ekki allt vitlaust” eins og heimildarmaður minn orðaði það.

DV 3. febrúar 2010

Leyfislaus skytta drap ísbjörninn

Ómar Vilberg Reynisson, ísbjarnarbani og bóndi að Flögu í Þistilfirði, hefur verið yfirheyrður af lögreglu þar sem hann hafði ekki skotvopnaleyfi og braut því lög er hann skaut hvítabjörn á dögunum. Vopnið er í haldi lögreglu og málið er í höndum ákæruvaldsins.

En ef Bjössi hefði drepið og étið Ómar, hefði hann þá verið yfirheyrður og sakaður um ólöglegt athæfi?


Á nat.is er að finna eftirfarandi:

Hvítabjörn eða ísbjörn er fremur sjaldgæfur gestur á Íslandi núorðið en fyrrum, þegar loftslag fór kólnandi á síðmiðöldum og allt fram yfir aldamótin 1900 voru ísár tíðari og þar með heimsóknir þessara stærstu bjarndýra jarðar.

Leiddar eru líkur að fjölgun heimsókna ísbjarna vegna röskunar búsetuskilyrða þeirra á norðurslóðum og æ fleiri dýr verði að hafast við á rekís til að finna nægilegt æti. Þegar ísinn bráðnar eiga dýrin ekki annars kost en að reyna að synda til næsta lands.

Á vef Náttúrufræðistofnunar er að finna eftirfarandi upplýsingar ásamt merkilegu korti þar sem athuganir eru staðsettar. Það vekur athygli hve þær eru hreint ótrúlega dreifðar um landið eins og t.d. á suðurlandi.

Skráðar tilvísanir til hvítabjarna á Íslandi eru einhvers staðar nálægt 500, birtar í sérstökum greinum, ævisögum eða héraðsritum, annálum, dagblöðum, vikuritum, mánaðar- eða ársritum, náttúrufræðiritum og handritum. Eflaust leynast enn fleiri heimildir um hvítabirni og sumar athuganir hafa e.t.v. aldrei verið skráðar en varðveist í munnmælum.

Samkvæmt nýjustu tölum í mars 2010 voru skráðar 289 athuganir á hvítabjörnum á Íslandi með samtals 611 dýrum. Viss ónákvæmni er í þessum tölum því hætta er á að dýr hafi verið tvítalin og stundum er aðeins getið í orðum hve dýrin voru mörg. Bein hafa fundist í jörðu í fjögur skipti og í ellefu tilvikum er aðeins um að ræða hvítabjarnaspor.

Og sá sem þetta ritar hugsar til þess með hryllingi ef Besta flokknum tækist að standa við það kosningaloforð sitt sem kveður um að fá ísbjörn í Húsdýragarðinn. Hann færi líklega aldrei út úr bíl í Laugardalnum ef hann þá æki yfirleitt þar í gegn.