Hlynur Jónsson Arndal er ættaður úr Fljótunum og bjó á Hávegi 24, Siglufirði frá fimm ára aldri en flutti suður ellefu ára gamall árið 1968. Hann kom afar sjaldan til Siglufjarðar eftir það enda átti hann enga ættingja eftir að afi hans og amma létust.
Á fullorðinsárum gerðist hann fjármálastjóri hjá SR og átti hann þá oft erindi til Siglufjarðar og síðan var það árið 2001 að hann keypti Hverfisgötu 21.
Foreldrar Hlyns voru þau Jón Finnbogason Arndal frá Hafnarfirði og Margrét Jóhannsdóttir sem var dóttir Jóhanns Guðmundssonar bónda á Þrasastöðum. Þau fluttu til Siglufjarðar um 1935 þegar afi hans þurfti að hætta búskap vegna heymæði eða skylds lungnasjúkdóms, kona hans var Sigríður Gísladóttir frá Ljótstöðum í Skagafirði, Hartmann Guðmundsson tók þá við Þrasastöðum.
Jóhann var síðan verkmaður hjá Síldarverksmiðjum Ríkisins. Þær voru alls 3 systurnar á Siglufirði með móður Hlyns, Gyða Jóhannsdóttir og Ástrún Jóhannsdóttir auk þess var Einar Jóhannsson ennþá viðloðandi Siglufjörð en hann nam vélsmíði á verkstæði SR og varð síðan vélstjóri. Gísli Jóhannsson bróðir þeirra flutti líka með, en hann var fluttur frá Siglufirði þegar fjölskyldan flutti þangað 1962 og var skrifstofustjóri hjá Síldarútvegsnefnd. Gyða var gift Sigurði Jónssyni sem var einn af forstjórum Síldarverksmiðjanna og maður Ástrúnar var verkstjóri yfir frystihúsi SR.
Í kringum árið 2000 stóð til að fjölskyldan fjárfesti í sumarbústað en eftir tíðar ferðir Hlyns norður var ákveðið að festa frekar kaup á húseign á Siglufirði enda miklu meiri afþreying í boði heldur en að sötra rauðvín í sveitinni eins og Hlynur komst að orði.
Miklar endurbætur hafa verið gerðar á húsinu við Hverfisgötu 21 frá því að þau hjónin Hlynur og Auður Eyjólfsdóttir eignuðust það og er húsið einkar fallegt og mikill bæjarsómi.
Það er enn verið að vinna að endurbótum innanhúss. Var það nú í vor þegar verið var að rífa vegg og opna á milli stofu og eldhúss á miðhæð hússins þegar Siglfirðingurinn Gestur Hansson var að aðstoða Hlyn og fann peningaseðil inni í veggnum. Seðillinn var sem nýr og hefur hugsanlega verið skilin eftir í veggnum þegar húsið var byggt 1929. Seðillinn er frá þeim tíma og hefur verið ígildi 4 klst. kaups verkamanns miðað við kauptaxta 1930 sem var kr. 1.20.
Það hafa margir búið í húsinu að Hverfisgötu 21 og kann húsið eflaust margar sögur sem eru ósagðar, en hér má sjá skjal sem Hlynur á um íbúaskrá hússins frá því að Jakob Magnússon flutti inn það herrans ár 1929: Hverfisgata 21 íbúaskrá
Þau hjónin hafa lagt mikla alúð í að halda upphaflega byggingarstílnum við og allar endurbætur tekist einstaklega vel og húsið hin mesta bæjarprýði. Hér má sjá myndir sem Hlynur hefur haldið saman frá endurbótum hússins: Sjá myndir
Myndir: Hlynur Jónsson Arndal.