Alls voru 1.164 ungmenni á aldrinum 16 – 19 ára hvorki starfandi né í námi í nóvember árið 2018 og hafði þeim fjölgað úr 986 árið áður.
Milli áranna 2017 og 2018 jókst hlutfall ungmenna á aldrinum 16 – 19 ára sem hvorki voru starfandi né í námi. Mest var aukningin á meðal 19 ára ungmenna eða úr 8,1% árið 2017 í 10,8% árið 2018. Leita þarf aftur til ársins 2009 til þess að finna viðlíka hlutfall ungmenna á þessum aldri sem hvorki var starfandi né í námi en þá átti það við um 11,7% í þessum aldurshópi.

Þegar horft er yfir tímabilið í heild sinni kemur í ljós að hlutfall ungmenna sem hvorki voru í námi né starfandi var hæst á Suðurnesjum eða 9,6% en næst hæst var hlutfallið á Suðurlandi eða 6,7%. Hlutfallið var hæst á Suðurnesjum á árunum 2008 og 2009 þegar það var rúmlega 13% hvort ár fyrir sig en hefur síðan farið lækkandi.

Talnaefni
Staða ungmenna 2005-2018 (xlsx)
Lýsigögn
Um er að ræða árlegar tölur fyrir árin 2005 – 2018. Miðað er við stöðu ungmenna í nóvember hvert ár. Er það í samræmi við það með hvaða hætti hliðstæðar tölur eru unnar á hinum Norðurlöndunum.
Þýðið eru öll ungmenni búsett á landinu í nóvember ár hvert. Öllum talningum lægri en 4 er eytt úr birtum gögnum.
Heimild og myndir: hagstofa.is