Á vefsíðunni Túristi.is birtist viðtal við Kristbjörgu Eddu Jóhannsdóttur hótelstjóra Hótel Sigló.
Segir hún þar vera mjög sátt við ganginn í ár og er bjartsýn fyrir það næsta. Túristi lagði fyrir hana nokkrar spurningar um hótelreksturinn.
Þið eruð eitt fárra íslenskra hótela með fullt hús hjá Tripadvisor. Hversu miklu máli sú einkunn?
Hún er mjög mikilvæg fyrir okkur enda er þetta það sem að flestir erlendir ferðamenn skoða þegar þeir eru að meta hvar skuli gista á leið sinni um landið. Við erum líka mjög stolt af því að vera með hæsta skor íslenskra hótela á Booking.com og Googlemaps á sama tíma. Að einhverju leiti eru þetta ólíkir markhópar sem nota þessar síður og þetta sýnir að við erum að ná að uppfylla þarfir breiðs hóps.
Tripadvisor er í raun bókunarsíða eins og Booking og Hotels.com og þær taka allar þóknun fyrir hverja pöntun. Er hlutfall bókana í gegnum svona síður hátt hjá ykkur?
Það eru í kringum 15 til 20 prósent pantana sem kemur í gengum þessar síður og mér finnst það vera heldur að minnka. Fólk er að átta sig á því að það er oft betra að nýta sér pakkatilboð á vegum hótelsins sjálfs. Þar er þá búið að bæta við einhverju viðbótar virði inn í pakkann, til dæmis kvöldverði, aðgangi að Sigló golfvellinum, skíðasvæðinu í Skarðsdal eða gönguskíðanámskeiði. Eins getum við boðið betri kjör fyrir stóra og litla hópa ef bókað er beint.
Bandaríkjamenn eru langfjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi en það eru túristar frá stóru Evrópulöndunum sem fara víðast um landið. Endurspeglast það í gestakomum til ykkar?
Fjöldi Evrópumanna stendur í stað en hingað koma fleiri Bandaríkjamenn og Asíubúar. Herbergjanýtingin hefur aftur á móti hækkað og megin skýringin á því er sú að íslenskum gestum er stöðugt að fjölga.
Í sumar var flogið beint frá Hollandi til Akureyrar. Fundið þið fyrir þeirri nýjung?
Já, það var að skila sér mjög vel til okkar og kærkomin viðbót.
Hver eru næstu skref Hótel Sigló?
Það er auðvitað fyrst og fremst að viðhalda þeim miklu gæðum sem við erum með og reyna að gera enn betur. Áður kom fólk til okkar til þess að gista á glæsilegu hóteli en nú kemur það ekki síður til þess að njóta veitinganna sem í boði eru. Það er mikill metnaður hjá veitingafólkinu okkar og fleiri faglærðir í bæði eldhúsi og í þjónustu. Við höfum einnig verið að þróa matseðlana, bæði á hótelinu og Hannes Boy undanfarið ár. Viðtökurnar við því hafa verið mjög jákvæðar. Jafnframt er fjölbreytileiki í veisluþjónustunni en Sigló Hótel er með nokkra sali sem nýtast fyrir hin ýmsu tilefni, t.d. ráðstefnur, brúðkaup, tónleika og veislur.