Kveikt var á jólatrénu á ráðhústorgi Siglufjarðar í gær. Margt var um manninn, veður stillt og gott, frekar kalt en fólk var vel búið og var ekki annað að sjá en allir væru glaðir í bragði.
Kynnir var Linda Lea Bogadóttir markaðs- og menningarfulltrúi, Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar flutti ávarp, börn úr leikskólanum Leikskálum sungu við undirleik Guðmanns Sveinssonar tónlistarkennara, leikskólabarn kveikti ljósin á trénu og jólasveinar komu, sungu og gáfu mandarínur.
Tilkynnt var að ekki væri hægt að dansa kringum jólatréð, það væri svo mikill snjór, en nokkrir krakkar létu það ekki á sig fá, hafa sennilega ekki heyrt það, heldur dönsuðu glöð og kát kringum tréð ( forsíðumynd ).