Fyrsta mánudag hvers mánaðar fyrir utan sumarfrí kemur saman hópur kvenna frá Dalvík og nágrenni, Ólafsfirði, Siglufirði og funda til skiptist á þessum stöðum, hér er um að ræða Soroptimistaklúbbinn á Tröllaskaga. Í dag eru 18 konur í klúbbnum og fer þeim fjölgandi.

Soroptimistaklúbburinn á Tröllaskaga var stofnaður 17. október 2015 og er hann yngsti klúbbur landsins, fyrir eru um 20 starfandi klúbbar víða um landið.

Á fundi Soroptimistaklúbbsins á Tröllaskaga

Soroptimistar eru alþjóðasamtök fyrir vinnandi konur í öllum störfum. Markmið Soroptimista er stuðla að heimsmynd þar sem konur og stúlkur ná í sameiningu fram því besta sem völ er á, bæði sem einstaklingar og sem hópur, og þar sem þær geta látið drauma sína rætast og til jafns við aðra skapað sterk og friðsöm samfélög um allan heim.

Í Alþjóðasamtökum Soroptimista (Soroptimist International) eru yfir 80.000 félagar í 127 löndum. Fyrsti klúbburinn var stofnaður árið 1921 í Oakland í Kaliforníu. Heimshlutasamböndin eru fjögur og undir hverju þeirra eru landssambönd eða svæðasambönd, og svo klúbbar.

Soroptimistasamband Íslands er hluti af Evrópusambandi Soroptimista. Íslenskir Soroptimistar eru um 600 talsins í 18 klúbbum víðs vegar um land. Í klúbbunum er leitast við að hafa fulltrúa sem flestra starfsstétta til að fá sem breiðastan hóp. Fyrsti íslenski klúbburinn var stofnaður árið 1959.

Orðið soroptimisti er samsett úr orðunum „sorores ad optumum” sem þýðir systur sem vinna að því besta.

Soroptimistaklúbburinn á Tröllaskaga hefur þegar stutt við sjálfstyrkingarnámskeið fyrir ungar stúlkur á Tröllaskaga og var námskeiðið ætlað til eflingar sjálfsmyndar stúlkna. Klúbburinn setur markmiðið hátt, í framtíðinni á að láta til sín taka og styðja við verðug málefni sem snúa að konum á svæðinu.

 

Myndir: úr einkasafni