Stefán Tryggvason, eigandi jarðarinnar Þórisstaða í Svalbarðsstrandarhreppi við Eyjafjörð, telur sauðfjáreigendur, í skjóli hreppsins, beita land hans án leyfis.

Sveitarstjórn hefur í áraraðir leyft að sauðfé sé sleppt á land í eigu hans í Vaðlaheiði og vill hann fá svör frá hreppnum af hverju slíkt er gert. „Fyrir mér snýst þetta um prinsipp. Vaðlaheiðin er ekki afréttur eða almenningur og hefur aldrei verið,“ segir Stefán sem sent hefur sveitarstjórn spurningar og krefst svara fyrir ágústlok ellegar fer hann með málið til umboðsmanns Alþingis.

„Að mínu mati stenst þetta ekki eignaréttarákvæði stjórnarskrár að aðrir megi nýta mitt land án leyfis og að hreppurinn ákveði það fyrir mig,“ bætir Stefán við. „Mér er skipað að girða af eigið land gegn ágangi búfjár í stað þess að það sé í hina áttina. Ég hef oft lýst þessu sem svo að offitusjúklingum sé leyft að stela kexi í búri hjá fólki ef búrið er ekki læst. Nú er bara svo komið að færri og færri hafa sauðfé og því á það að vera eigenda þeirra að halda fé sitt á eigin landi.“

Frétt: Vísir.is