Í gær kynnti Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra nýtt frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla.
Frumvarpið er í samræmi við það meginmarkmið stjórnvalda á sviði fjölmiðlunar að viðhalda og efla lýðræðislega umræðu og lýðræðisþátttöku fólks með því að efla miðlalæsi, stuðla að fjölbreytni, gagnsæi og fjölræði í fjölmiðlum.
Þá verði forsendur fyrir hendi til að mismunandi fjölmiðlar fái þrifist svo að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttu efni, fréttum, samfélagsumræðu og íslenskri menningu. Í skýrslu nefndar um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi, sem skipuð var í lok árs 2016 kemur fram að rekstur einkarekinna fjölmiðla sé svo erfiður að það gefi stjórnvöldum tilefni til að stuðla að bættu rekstrarumhverfi þeirra.
Í samtali við RUV sagði ráðherrann meðal annars: “þetta er liður í því að efla starfsumhverfið, vegna þess að fjölmiðlar gegna bara svo mikilvægu hlutverki í lýðræðissamfélaginu varðandi miðlun og öflun vandaðra frétta”.
Í Samráðsgátt, sem er opið samráð stjórnvalda við almenning, er hægt að senda inn umsögn um frumvarpið. Umsagnarfrestur er 31.01.2019 – 15.02.2019.
Meginefni frumvarpsins er að veita stjórnvöldum heimild til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla í formi endurgreiðslu á allt að 25% af tilteknum hluta ritstjórnarkostnaðar.
Frumvarpið má nálgast hér.