Farið er að vora hér á Tröllaskaga enda veðrið búið að vera einstaklega milt að undanförnu. Náttúran er að vakna til lífsins og á vef Fuglaverndar segir að vart hafi verið við eftirfarandi farfugla:

Í Stokkseyrarfjöru þann 28. mars náðist mynd af fyrstu lóu vorsins og var það Hjördís Davíðsdóttir sem náði henni. Þetta mun vera sami dagur og lóan kom í fyrra.

Á póstlista fuglaáhugamanna um allt land eru nú daglegar fregnir af farfuglum:

  • 27/3 Sá þó fyrstu grágæsirnar (2) og sílamáfana (2) í dag og yfir 20 fugla hóp af tjaldi sem var greinilega nýkominn. Fyrstu tjaldarnir voru komnir fyrir nokkru síðan. – Jónína Óskars, Fáskrúðsfirði
  • 28/3 11 skógarþrestir taldir í húsagarði hér í dag. Hafa ekki verið í vetur. – Jónína Óskarsdóttir, Fáskrúðsfirði.
  • 29/3 Það sást lóa hér á Stokkseyri í gær og náðist mynd af fuglinum. Tveir jaðrakanar í sumarbúningi á Eyrarbakka með tjöldum. – Jóhann Óli Hilmarsson, Stokkseyri.
  • 30/3 Í Þöll í Hafnarfirði í morgun: Skógarþröstur tyllti sér í grenitopp og söng óburðugt lag. Fyrsti söngur skógarþrastar sem ég heyri í vor. – Erling Ólafsson.
  • 30/3 Ég sá fyrstu urtendurnar í gær hér á Fáskrúðsfirði og síðan fyrstu rauðhöfðaendurnar í dag. – Jónína Óskarsdóttir.
  • 30/3 Ég myndaði í dag blesgæsir og heiðagæsir í Flóanum, nokkrar blesgæsirnar voru merktar. Er þetta ekki óvenju snemma fyrir þessar tegundir? – Svanhildur Egilsdóttir.

Gísli Kristinsson í Ólafsfirði er feikna góður ljósmyndari og hefur hann mikinn áhuga á fuglaljósmyndun. Hér má sjá nokkrar fuglamyndir sem hann hefur tekið í vor.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.

 

.