Menntaskólinn á Tröllaskaga hóf störf haustið 2010. Skólinn býður upp á metnaðarfullt nám með fjölbreyttum kennsluháttum sem miða að virkni nemenda og sjálfstæði. Einkunnarorð skólans eru: Frumkvæði – Sköpun – Áræði og endurspeglast þau í námsframboði, kennsluháttum, námsaðferðum, skipulagi og viðfangsefnum.

Skólinn starfar eftir framhaldsskólalögum frá 2008 en mikilvægasta nýjungin í þeim, frá fyrri lögum, er að ábyrgðin á námskrárgerðinni færðist yfir til skólanna og þeim gefið frjálst að skipuleggja það nám sem þeir vilja bjóða upp á.

Allir áfangar sem kenndir hafa verið við skólann hafa verið búnir til af kennurum skólans, er þar bæði um að ræða alla grunnáfanga sem og mikinn fjölda valáfanga. Alls er um að ræða á fjórða hundrað áfanga. Sumir hafa einungis verið kenndir nokkrum sinnum en aðrir á flestum önnum. En það fer fjarri því að áfangarnir séu þeir sömu í dag og þegar þeir voru búnir til því þeir eru í sífelldri endurskoðun. Taka þeir breytingum í takti við reynslu nemenda sem sitja þá og kennara sem kenna þá og einnig eftir tækninýjungum og þróun hverrar námsgreinar fyrir sig. Aukið fjarnám hefur einnig sett sinn svip á þróun áfanganna.

Eins og að líkum lætur voru að meðaltali flestir áfangar búnir til á fyrstu árum skólans og síðan hefur hægst á nýsmíðinni. Hún er þó enn í gangi og á hverri önn verða til nokkrir nýir áfangar hjá kennurum skólans. Á þessari önn eru þeir fjórir; einn sem lýtur að uppeldisfræði, tveir áfangar í íslensku sem öðru máli og síðan er áfangi vegna ferðar nemendahóps til Kaupmannahafnar í haust þar sem farið verður á Íslendingaslóðir og heimsóttir staðir sem tengjast sameiginlegri sögu landanna. Í ferðinni verður einnig unnið með dönskum nemendum þar sem umfjöllunarefnin eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamvinna og mismunandi menningarheimar.

Mynd Gísli Kristinsson