Ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar á morgun þar sem kynnt verður ný samgönguáætlun og áform um stofnun sérstaks innviðafélags til að flýta stórum samgönguframkvæmdum.

Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, mun leggja fram þingsályktunartillögu um nýja samgönguáætlun fyrir árin 2026–2040, auk fimm ára aðgerðaáætlunar. Gert er ráð fyrir að tillagan verði tekin til umræðu á Alþingi í næstu viku.

Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV verða Fljótagöng á Tröllaskaga efst á lista þeirra jarðgangakosta sem ráðherra hefur haft til skoðunar. Nýverið var auglýst útboð á for- og verkhönnun þeirra.

Blaðamannafundurinn hefst klukkan 10:30. Að kynningu lokinni munu ráðherrar taka við spurningum úr sal. Fundinum verður streymt beint á vef Stjórnarráðsins.

Mynd/aðsend