Falleg stund var í miðbæ Siglufjarðar og í Ólafsfirði í gær sunnudaginn 17. nóvember í minningu þeirra sem látist hafa í umferðaslysum.

Á Siglufirði var það Slysavarnadeildin Vörn sem stóð  fyrir minningarathöfninni  í samstarfi við Björgunarsveitina Stráka. Einnig tóku slökkvilið, sjúkrabíll og lögreglan þátt í athöfninni.
Anna Hulda djákni sagði nokkur orð við þetta tækifæri og var þeirra sem látist hafa í umferðinni minnst með einnar mínútu þögn.

Í Ólafsfirði stóð Björgunarsveitin Tindur fyrir minningarathöfninni, sjúkrabílar Fjallabyggðar ásamt sjúkraflutningamönnum voru á staðnum. Sr. Sigríður Munda stýrði athöfninni.

Við þetta tækifæri hélt Bjarkey Ólsen Gunnarsdóttir alþingismaður ávarp í minningu þeirra sem látist hafa í umferðarslysum og má lesa það hér að neðan.

 

Frá Ólafsfirði. Mynd/Lára Stefánsdóttir

“Kæru gestir

Á degi sem þessum eru það ekki síst eftirlifendur þeirra sem látist hafa í umferðarslysum sem við hugsum til en líka þeirra sem farnir eru og alls þess sem þau misstu af vegna þess að þau eru ekki lengur á meðal okkar. Það getur líklega enginn, sem ekki hefur upplifað, sett sig í spor þeirra sem hafa þurft að takast á við sorgina og eftirsjána sem fylgir því að missa einhvern í umferðarslysi. Hvert slys er einu slysi of mikið og hvort heldur það er ungt fólk í blóma lífsins eða eldra fólk þá standa eftir aðstandendur sem eiga um sárt að binda.

En hvað getum við gert til að fækka umferðarslysum? Margskonar áróður og fræðsla skiptir máli en ekki síður öruggari bílar og gott vegakerfi . Þar þurfa stjórnvöld að standa sig enn betur og flýta vegabótum þar sem umferðin er hvað mest og flestu slysin eiga sér stað. En við greinum líka orsakir slysanna eftir því sem unnt er og reynum að draga af þeim lærdóm.

Þeir sem voru ekki með beltin spennt, þeir sem voru ölvaðir eða undir áhrifum fíkniefna, þeir sem keyrðu útaf hvaða áhrif hafði allt þetta á þær aðstæður þar sem fólk lést? Með því að spyrja þessara spurninga geta yfirvöld reynt að gera sitt til að draga úr áhrifum og minnka slysahættuna.

Í ljósi þeirrar gríðarlegu aukningar sem orðið hefur í komu erlendra ferðamanna hér á landi eykst líka ábyrgð bílaleiga m.a. að fá upplýsingar um hvert fólk hyggist leggja leið sína þannig að þeir séu á viðeigandi bílum. Einnig þarf að upplýsa erlenda ferðamenn um aðstæður sem geta orðið á vegi þeirra t.d. að stoppa ekki á blindhæð af því þar eru hross í haga og frábært að mynda.

En við þurfum líka öll að líta í eigin barm enda fylgir því mikil byrgð að keyra bíl. Hvernig hegðum við okkur í umferðinni?  Tölum við í símann undir stýri, skoðum feisbúkk eða sendum sms? Besta slysavörnin er að við hegðum okkur vel í umferðinni en ætlum ekki bara öðrum að hegða sér skikkanlega.

En gott fólk á degi sem þessum verð ég líka að minnast á þá viðbragðsaðila sem koma að umferðarslysum, lögregluna, sjúkraflutningafólkið, björgunarsveitirnar, heilbrigðisstarfsfólkið og margir fleiri. Þeirra starf er bæði erfitt og ómetanlegt og fyrir það ber að þakka.

Að lokum hvet ég okkur öll til leiða hugann að því hvers vegna við höldum slíkan minningardag. Að við tökumst á við þá ábyrgð sem fylgir því að vera ökumaður og gleymum ekki þeirri alvöru sem því fylgir. Látum það ekki henda okkur að vera kærulaus því mörgum banaslysum væri hægt að afstýra ef hvert og eitt okkar keyrir með aðgát.”

 

Forsíðumynd: Þórarinn Hannesson
Mynd í frétt: Lára Stefánsdóttir