Flóra er menningarstaður í hjarta Akureyrar, verslun með handverk og listmuni, notað, nýtt og heilnæmt og þar eru líka vinnustofur listamanna.
Flóra stendur fyrir útgáfu Pastel ritraðarinnar, sem eru einfaldar smábækur með skáldlegum verkum höfunda, sem eiga sumir hverjir allt aðra stöðu í hinum skapandi heimi en að skrifa.
Föstudaginn, 7. desember, var útgáfusamsæti í Flóru, þar sem höfundar fimm nýrra Pastelrita lásu úr verkum sínum.
Kristín Kjartansdóttir í Flóru heldur utan um útgáfuna ásamt Hlyni Hallssyni safnstjóra Listasafnsins á Akureyri. Kristín ávarpaði gesti og gerði stutta grein fyrir Pastelútgáfunni og sagði að með þeim fimm nýju ritum sem nú sáu dagsins ljós væru ritin orðin alls 14.
Hún sagði frá því að Júlía Runólfsdóttir hjá Studio Holt hefði átt þátt í hönnun Pastelritanna og sæi um uppsetningu þeirra.
Höfundarnir lásu sýni úr verkum sínum í þeirri röð sem þeir standa, frá 10-14. Fyrst las Lilý Erla Adamsdóttir úr riti sínu Biðu, þá las Sölvi Halldórsson úr Piltum, Ragnhildur Jóhanns úr Draumfara Atlasi, Arnar Már Arngrímsson úr Kannski er það bara ég og loks Samúel Lúkas úr sögu sinni Eyddu mér.
Akureyrarstofa og Menningarsjóður Akureyrarbæjar hafa styrkt kynningu ritraðarinnar, en önnur kynning fór fram í Mengi í Reykjavík daginn áður. Verk í Pastel ritröð eru til sölu í Flóru í miðbæ Akureyrar og Safnbúð Listasafns Íslands í Reykjavík.
Frétt: Sverrir Páll Erlendsson
Myndir: Daníel Starrason