Einsamræður er örsagnasafn eftir Birtu Þórhallsdóttur. Sögurnar eru ýmist sprottnar úr íslenskum veruleika eða af framandi slóðum. Sumar sögurnar liggja á mörkum myndlistar og ritlistar en aðrar á mörkum þjóðsagna.
Birta hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir drög að handritinu árið 2016.
Myndverk í bókinni er eftir Sebastian Lozano og Birtu.

Um höfund:
Birta Ósmann Þórhallsdóttir er fædd árið 1989 og býr og starfar ásamt útgáfustjóranum, kettinum Skriðu, í Holti menningarsetri á Hvammstanga. Birta er með bakklárgráðu frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands og meistargráðu úr ritlistardeild Háskóla Íslands.

Á facebook Skriðu segir Birta:
„Ég hef unnið mikið ósjálfrátt, þ.e. leyfi orðum, sögum, ljóðum eða teikningum að koma til mín, þegar það gerist er það oft nokkuð mótað og ég ritskoða það lítið. Gjarnan vilja þessi listform renna saman í eitt. Ég reyni að skrifa mikið en fæst af því er ætlað að koma fyrir almenningssjónir, margt er grafið í jörð eða lokað í bók, sumar skissur dreg ég þó ef til vill fram og nota síðar. Nú nýlega fór ég aftur á móti að vinna stefnufastar við skriftirnar, sest niður og vinn með ákveðið efni, leyfi því að gerjast, endurrita, sæki efniviðinn dýpra ofan í kvikuna, fer inn í merginn. Mér finnst gott að vinna að mörgu í einu; skrifa, þýða, teikna og hlusta helst á þungt graðhestarokk, blús eða jazz á meðan, geta gripið í hvert viðfang eftir líðan hverju sinni.“

STRANGFLATARLIST
Ekkert í heiminum er fegurra en vel sprottið límónutré. Nema þá ef vera skildi að sitja í réttri stöðu yfir kaffibolla sem grá gufa rýkur upp úr. Rétt staða fer eftir sólstöðu hverju sinni og afstöðu þinni til bollans. Þú situr á svolítið háum stól og geymir bollann á lágu borði eða mögulega í gluggakistu. Gufan liðast upp í loftið þar til hún mætir ör­lítilli sólarglætu og þegar þú beygir þig yfir bollann sérðu glytta í sjálfan þig á floti á svörtum fletinum.

Einsamræður kom út hjá Skriðu í fyrra og fæst að sjálfsögðu inn á vefnum www.skridabokautgafa.is