Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sjósetti í dag flothylki til að sýna hvernig rusl í hafi ferðast til og frá norðurslóðum. Verkefnið tengist formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og er ætlað að stuðla að aukinni þekkingu og meðvitund um rusl í hafi, ekki síst plasti.

Að verkefninu stendur PAME (Protection of the Arctic Marine Environment) sem er starfshópur innan Norðurskautsráðsins, með aðsetur á Akureyri. Þau vinna nú að svæðisbundinni aðgerðaáætlun fyrir plast og annað rusl á hafsvæðum norðurslóða en málaflokkurinn er eitt af forgangsmálum í formennskutíð Íslands í Norðurskautsráðinu. Verkís hannaði hylkið sem búið er GPS-sendi og því verður hægt að fylgjast með ferðalagi þess yfir langan tíma. Alþjóðlegur fundur PAME stendur nú yfir í Reykjavík og verða fleiri hylki sjósett á næstu misserum annars staðar á norðurslóðum.

Flothylkinu var varpað frá varðskipinu Þór á vegum Landhelgisgæslunnar og siglt var frá Keflavíkurhöfn norðvestur af Garðskaga.

.

„Plast í hafi er vaxandi vandamál og brýnt að auka þekkingu á því hvernig ruslið berst um heimshöfin. Flothylkin veita þar mikilvæga innsýn, auk þess sem þau auka meðvitund okkar um plast í hafi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Að draga úr plastmengun er eitt af mínum forgangsmálum sem ráðherra og margvíslegum aðgerðum hefur þegar verið hrint í framkvæmd hér heima eða eru í farvatninu. Ísland hefur auk þess beitt sér alþjóðlega gegn plastmengun og sett málið á dagskrá hjá Norðurskautsráðinu. Það er mjög mikilvægt.“

 

Myndir: Stjórnarráð Íslands