Ekki er talið að alvarleg slys hafi orðið á fólki þegar fjögurra sæta flugvél brotlenti á Kinnarfjöllum, milli Eyjarfjarðar og Skjálfandaflóa, á níunda tímanum í kvöld. Tvennt var um borð og sótti þyrla Landhelgisgæslunnar fólkið og fór með það á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Tilkynning barst Landhelgisgæslunni í gegnum neyðarsendi vélarinnar rétt fyrir klukkan níu í kvöld. Flugstjórn á Akureyri hafði sambandi við fólkið sem sagðist vera óhult en kalt.

Aðgerðaráætlun vegna flugslysa var virkjuð og aðgerðastjórn sett upp á Akureyri og Húsavík.  Vélin fór niður við Skálaárvatn á Kinnarfjöllum, suðvestur af Húsavík, um fimm kílómetra suðvestur af bænum Syðri-Leikskálaá.

FÓLKIÐ FLUTT Á SJÚKRAHÚS TIL AÐHLYNNINGAR

Vélsleðahópur sem var á ferð um þessar slóðir á eigin vegum kom að fólkinu og hlúði strax að því. Þá flaug flugvél yfir staðinn og kastaði niður til þeirra svefnpoka og tjaldi.  Á meðan beðið var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar kúrði fólkið í svefnpokanum til að halda að sér hita, eins og það var orðað við fréttamann RÚV.

Björgunarsveitarmenn voru að búa sig undir að fara á slysstað á vélsleðum þegar Sunna Valgerðardóttir, fréttamaður kom á staðinn og tók þessar myndir. Ekki reyndist þörf á því að fara á slysstað þar sem þyrlan komst að fólkinu. Það var flutt á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar. Örsok brotlendingarinnar er ókunn.

Frétt og mynd fengin af vef: RUV