Nýsköpunarhreyfingin Norðanátt stendur fyrir fjárfestahátíð á Siglufirði 31. mars næstkomandi þar sem fjárfestum og frumkvöðlum verður boðið upp á ógleymanlegan dag. Á hátíðinni kynna frumkvöðlar verkefni sín sem snerta orkuskipti, hringrásarhagkerfið eða fullnýtingu auðlinda í takt við áherslur Norðanáttar; matur, orka, vatn.

Norðanátt er öflugt samstarf aðila á Norðurlandi og vinnur hópurinn í anda nýrrar klasastefnu, þvert á stofnanir samfélagsins og hraðar framþróun og nýsköpun. Að verkefninu koma Eimur, SSNE, SSNV, Nýsköpun í norðri og Hraðið auk samstarfs við stuðningsfyrirtækið RATA.

“Við viljum skapa vettvang á Norðurlandi með því að leiða saman frumkvöðla og fjárfesta og sýna gróskuna og öll tækifærin hér á Norðurlandi” (Norðanátt)

Norðanátt stendur fyrir viðburðum sem styðja við frumkvöðla með hugmyndir á ólíkum stigum. Fyrsti viðburðurinn var lausnamótið Hacking Norðurland sem haldið var í apríl 2021. Því næst fór af stað viðskiptahraðallinn Vaxtarrými síðasta haust þar sem 8 teymi fengu stuðning til að vaxa í 8 vikur. Nú er komið að stefnumóti á Siglufirði þar sem fjárfestar og frumkvöðlar koma saman og kynnast öflugri nýsköpun og fjárfestingartækifærum á svæðinu. Viðburðurinn er lokaður og eingöngu ætlaður fjárfestum sem horfa til landsbyggðarinnar sem ákjósanlegs fjárfestingakosts.

Mynd/Jón Steinar Ragnarsson