Í gær var formlega opnuð starfsstöð SSNE, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra – SSNE í Ólafsfirði. Um er að ræða samvinnuverkefni samtakanna, Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar. Verkefnisstjóri er Anna Lind Björnsdóttir. 

Anna Lind Björnsdóttir hóf störf í síðustu viku og er fyrsti starfsmaður SSNE á Tröllaskaga en hún er með viðveru á bæði Dalvík og Ólafsfirði.

Anna Lind er ættuð frá Siglufirði, dóttir hjónanna Björns Z. Ásgrímssonar og Sóleyjar Ólafsdóttur. Anna Lind er gift Arnari Þór Stefánssyni og eiga þau þrjú börn, Arnar er einnig ættaður frá Siglufirði.

Hún ólst upp í Reykjavík. Síðustu 10 ár hefur hún verið búsett í Svíþjóð og Noregi og flutti nýverið aftur heim.

Anna Lind er menntaður ferðamálafræðingur og hefur B.A gráðu frá Háskólanum á Hólum og M.Sc. gráðu í náttúrutengdri ferðaþjónustu frá NMBU, Háskólinn í Ås í Noregi.Hún hefur umfangsmikla reynslu af verkefnastjórnun, stærri og minni verkefna, og ráðgjöf til fyrirtækja og einstaklinga. Síðustu ár hefur Anna Lind starfað sem viðskiptafulltrúi hjá sendiráði Íslands í Osló, þar sem meginhlutverk hennar var m.a að greiða leið og gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja og einstaklinga Í Noregi.

Hún hefur einnig starfað í ferðaþjónustu við að skipuleggja ferðir og markaðssetja Ísland og Grænland sem áfangastað og hefur starfað hjá Ferðafélagi Noregs. Þá hefur Anna Lind verið stundakennari við viðskiptadeild Háskólans í Suð-austur Noregi (USN).

Anna Lind er spennt fyrir komandi verkefnum hjá SSNE enda er svæðið stútfullt af framsæknu fólki með drifkraft og tækifærin á hverju strái. Hægt er að ná í hana í annalind@ssne.is.

Heimild og mynd/ SSNE