Á eyjunni Gran Canaria, sem er ein af Kanaríeyjunum svokölluðu, búa hjónin Magnús Björgvinsson og Kristrún Ingibjartsdóttir.

Fréttamenn Trölla heimsóttu þau nýlega, þar sem þau búa nálægt Ensku ströndinni (Playa del Inglés) og tóku þau tali.

Magnús er fæddur árið 1947 en Kristrún 1951. Saman eiga þau þrjú börn sem heita: Rósa Björg f. 1969 – býr í Danmörku, Jóna Björt f. 1972 – býr í Hafnarfirði, og Magnús f. 1982 – býr á Siglufirði. Þau Magnús og Kristrún eiga 50 ára brúðkaupsafmæli, gullbrúðkaup, á árinu.

Barnabörnin eru orðin 9 og barna-barnabörnin 7.

Á heimili þeirra Magnúsar og Kristrúnar býr einnig hundurinn þeirra, tíkin Rósalida, sem er norsk og flutti fyrst til Íslands en svo til Kanarí, og kann vel við sig þar.

 

Rósalida hin norska unir sér vel á Kanarí

 

Magnús vann hjá Fjarðarkaupum í Hafnarfirði í 27 ár, og lætur afar vel af þeim tíma og vinnunni þar. Kristrún vann hjá Byggt og Búið í Kringlunni og seinna hjá Húsasmiðjunni.

Árið 2006 veiktist Kristrún þannig að hún þurfti að hætta vinnu, og notast oft við hjólastól síðan. Magnús bar Fjarðarkaupum söguna vel og nefndi að þar fékk hann frí eins og þurfti, á meðan þau fóru í fjölmargar rannsóknir vegna veikinda Kristrúnar.

Magnús Magnússon, sonur Magnúsar og Kristrúnar, flutti til Siglufjarðar fyrir rúmum áratug og er verslunarstjóri hjá SR Bygg. Hann fékk föður sinn til að hjálpa sér við pallasmíði á Siglufirði og við pallasmíðina barst talið að því að það væri fínt fyrir Magnús eldri og Kristrúnu að flytja til Siglufjarðar þegar sá tími kæmi að hann hætti að vinna. Skömmu síðar var Magnús yngri búinn að finna hús á Siglufirði sem foreldrar hans keyptu, þótt Magnús eldri væri enn að vinna hjá Fjarðarkaupum í Hafnarfirði. Húsið var leigt út þar til hjónin fluttu til Siglufjarðar 1. maí 2013. Það ár voru nokkur snjóþyngsli á Siglufirði og fékk Magnús yngri vini sína hjá björgunarsveitinni til að moka sig að húsinu og bera inn búslóð foreldranna, sem biðu af sér veður á Sauðárkróki. Búslóðin var því komin í hús þegar þau Magnús og Kristrún komu norður.

 

Kristrún og Magnús eru ánægð á Kanarí

 

Magnús Björgvinsson vann við afleysingar hjá SR Bygg á Siglufirði eitt sumar, en fór svo að dytta að húsinu sínu veturinn eftir. Svo kom auglýsing frá Vínbúðinni á Siglufirði og í framhaldinu vann hann þar í tvö ár, en þurfti að hætta vegna aldurs, að kröfu Vínbúðarinnar.

Í febrúar 2018 voru þau hjón, Magnús og Kristrún í fríi á Kanarí, en þangað höfðu þau farið í frí a.m.k. sjö sinnum áður. Kristrún hafði átt erfitt með að komast um á Siglufirði vegna máttleysis af völdum veikindanna og komst lítið út þar. Á Kanarí breyttist mikið, heilsan batnaði til muna í heitu loftslaginu og Magnús er duglegur að fara út að ganga, með Kristrúnu í hjólastólnum, segist vera orðinn 15 kílóum léttari og líkar vel. Heima á Íslandi var allt farið í bíl, jafnvel þótt leiðin lægi bara milli húsa.

Svo fór, að þau ákváðu að flytja alfarin til Kanarí, sem þau gerðu í september í fyrra.

 

Útsýnið af svölunum

 

Nú barst talið að matnum á Kanarí. Kristrúnu líkar vel við matinn þar ytra, en saknar þó matarins á Íslandi nokkuð, vantar nýja ýsu, sem þau fá reyndar senda af og til. Magnús talaði um “Kanaríbragð” sem honum fellur ekki vel, en Kristrún kannast ekki við.

Þau hitta fólk ekki mjög mikið en hafa kynnst nokkrum Íslendingum ytra sem þau hitta stundum. Hjónin ætla að búa áfram á Kanarí, þar líkar þeim vel við veðurfarið og þá sérstaklega hitann. Kristrún segir að hitinn skipti sköpum fyrir heilsuna, henni líður miklu betur þarna úti en hér heima. Að sögn Magnúsar er fjárhagslega mun auðveldara að búa úti, en mest er það hitastigið sem laðar vegna þess hve heilsan er betri og verðlagið er bara bónus.

 

Það er notalegt að sitja á svölunum í sólskini og 20 stiga hita, í febrúar

 

Fljótlega ætla þau að flytja í aðra íbúð á betri stað á Kanarí, og þá munu leigutekjurnar af húsinu á Siglufirði passa á móti íbúðinni sem þau leigja á Kanarí, þegar búið er að reikna fasteignagjöld og annan fastan kostnað. Þau ætla ekki að selja á Sigló á næstunni heldur eiga möguleikann á að flytja heim ef eitthvað kemur hugsanlega upp á sem krefst þess.

 

Fréttamenn fengu kræsingar

 

Tíkin Rósalida var alveg sátt við heimsóknina

 

Magnús Björgvinsson á Kanarí