Inngangur
Fyrir mörgum árum var ég við nám í félagsfræði við háskólann í Osló og vann þar að ritgerð um þróun byggða, einkum sjávarbyggða. Auðvitað var þróun Siglufjarðar mikilvægt viðfangsefni. Þetta var skömmu eftir að síldin brást og ástandið á Siglufirði varð slæmt. Ritgerðin sjálf er að mestu týnd, en ég á enn eitthvað af heimildum og slitrum úr ritgerðinni, sem segja sögu.
Í þremur stuttum greinum segi ég frá skipakomum til Siglufjarðar, breytingu á fjárhagslegu umhverfi og búferlaflutningum. Þetta meira frásögn en vísindaleg greinargerð.
Fólkið sem flutti og hinir sem fluttu ekki, og þó – 3
Þegar síldin fór að bregðast Siglufirði á árunum eftir 1962 fór fólk að bregða fæti og flytja á brott.
Á árunum 1962 til 1969 fækkaði íbúum á Siglufirði um 377 og fram til 1974 fækkar enn um 168 íbúa. Það er fækkun um 545 manns frá 1962 til 1974. Það sem vekur athygli er að fækkunin eftir 1968 er tiltölulega minni en árin á undan.
Áhrif minnkandi síldveiða fyrir Norðurlandi hafði áhrif um allt land. Minnkandi útflutningstekjur vegna minni síldveiða fór saman við minni bolfiskafla og minni tekjur. Það var of lítið um atvinnu fyrir sunnan til þess að það borgaði sig að flytja. Þegar ég var að safna efni í ritgerð mína leitaði ég uppi fólk sem hafði flutt, bæði áður en síldin brást Siglufirði og eftir, og ég ræddi við allmarga sem fluttu alls ekki, en héldu kyrru fyrir í firðinum fína.
Þegar samfélag er skoðað er stundum teiknaður upp pýramídi.
Neðst er alþýðan, fólk flest og svo þegar ofar dregur í pýramídanum er fólk sem situr í áhrifastöðum ýmis konar og efst í toppi pýramídans eru þeir sem ráða mestu og/eða eru betur efnaðir einstaklingar. Ástæður þess að fólk flytur á milli staða eru margar, en við „eðlilegar“ aðstæður eru ástæðurnar oftast spurning um betur launaða vinnu og/eða meiri samfélagslega ábyrgð, t.d. embætti. Fólksflutningar á Íslandi eru að mörgu leiti öðruvísi en t.d. í Noregi.
Á Íslandi hefur straumurinn verið stríðari frá öllu landinu til Stór-Reykjavíkur. Í Noregi hefur fólk flust meira til stærri bæja í sama landshluta. Á Stór-Osló búa rúmlega ein miljón manns af 5,5 miljónum í öllu landinu, sem er verulega minni hluti en hluti Stór-Reykjavíkur af öllum íbúum á Íslandi, sem er miklu meira en helmingur.
Af því að ég þekkti til á Siglufirði og vissi hvaða fólk hafði flutt og í hvaða störf það fór gekk vel að teikna upp línur milli Siglufjarðar-pýramídans og Stór-Reykjavíkur- pýramídans, sem auðvitað var miklu hærri. Sem dæmi fór bæjarstjóri efst úr toppi Siglufjarðar í embætti í sveitarfélagi nálægt Reykjavík. Sumir töldu hann hafa flust uppávið, enda þótt hann væri ekki í toppi aðflutnings-pýramídans. Í öðrum tilvikum var flutningurinn greinilega niður á við, úr tiltölulegri áhrifastöðu á Siglufirði í venjulega vinnu í Reykjavík. Ég hafði engin tök á að meta áhrif flutnings á laun þess fólks sem flutti.
Þegar ég ræddi við fólk sem hafði flutt snemma, þ.e. áður en síldin brást alveg, var viðkvæðið að ástæðan væri að komast í nágrenni við börn og barnabörn, að geta oftar sótt leikhús og listviðburði, að hafa meira vöruúrval í verslunum o.s.frv. Ástæðan var yfirleitt ekki atvinna, þó að sumir nefndu það, enda atvinnuleysið ekki orðið aðkallandi á Siglufirði. Þegar ég spurði hversu oft þau hefðu sótt leikhús og aðra listviðburði kom í ljós að allmargt af því fólki sem flutti ekki hafði farið oftar í leikhús en hitt sem flutti og hafði nefnt leikhús og listviðburði sem ástæðu flutnings.
Það virtist sem að það væri nóg að geta farið, þó svo að af því yrði ekki. Þau sem ég ræddi við og höfðu flutt eftir að síldin brást báru oftar við atvinnumöguleikum sem ástæðu þess að þau fluttu. Það er mikilvægt að nefna í þessu sambandi að allmargir Siglfirðingar, mest karlar, fóru til lengri dvalar við vinnu erlendis, m.a. í Svíþjóð. Allan þann tíma voru þeir skráðir til heimilis á Siglufirði. Mér er ekki kunnugt um hve margir þetta voru en það var einhver hópur, og ennfremur voru Siglfirðingar við vinnu annars staðar á Íslandi tímabundið.
Ég fann það þegar ég kom til Siglufjarðar eftir næstum þriggja ára fjarveru að fólki fannst mikið um fámennið og að það væri lítið við að vera. Ég held að það hafi verið töluvert margir sem fóru til vinnu annars staðar, en áttu heima á Siglufirði, og að það hafi aukið á tilfinninguna um fámenni. Það má líka vera að minningin um fólksmergðina á götum bæjarins á síldarárunum hafi gert þessa tilfinningu meiri.
Það hafði mikil áhrif á fólk að sjá bryggjur og mannvirki síldaráranna brotna og grotna. Það voru margir sem nefndu ásýnd bæjarins sem alvarlegt mál og niðurdrepandi. Ég man að sama holan var á Hólaveginum og hafði verið þar mörgum árum áður, það var eins og hún kinkaði til mín kolli og heilsaði.
Ég gerði enga tilraun til að aldursgreina fólkið sem fór og fólkið sem var eftir, en árgangarnir í barnaskólanum urðu stöðugt minni. Sem betur fer hélt Siglufjörður velli og með samtakamætti og elju reis bærinn aftur fallegri en fyrr. Brottfluttir Siglfirðingar héldu heim, eignuðust og gerðu upp hús og garða og urðu á margan hátt þátttakendur í bæjarlífinu, enda þótt þau ættu lögheimili annars staðar. Það eru auðvitað þau sem ekki fluttu, en ræktuðu bæinn og samfélagið, sem eiga heiðurinn af því að Siglufjörður er enn í dag stór bær, eiginlega miklu stærri en hann er í raun og veru. Það er ekki alltaf að nostalgían (fortíðarþráin eða fortíðartrúin) nái að gera sig gilda því hún er vandmeðfarin.
En þetta hefur Siglfirðingum tekist og á fullkomin hátt og látið fortíðina og nútíðina mætast á torginu.
Siglufjörður – skipakomur
Fjárhagslegt umhverfi – vöxtur og fall