Landlæknisembættið hefur gefið út tíu heilræði á tímum COVID-19.
Eitt af því sem mælt er með, er að forðast að nota áfengi og tóbak til að slá á kvíða og áhyggjur. „Neysla áfengis og reykingar veikja ónæmiskerfið auk þess að hafa neikvæð áhrif á heilsu og vellíðan til lengri tíma,“ segir á vef Landlæknisembættisins.
Heilræðin tíu byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað er gagnlegt að gera til að hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan.
Heilræðin eru sérsniðin að því ástandi sem nú ríkir í samfélaginu:
Hlúum vel að okkur sjálfum og okkar nánustu
Verum þakklát fyrir það sem við höfum
Borðum hollan og góðan mat daglega
Hreyfum okkur rösklega á hverjum degi
Stuðlum að betri svefni með góðum svefnvenjum
Forðumst að nota áfengi eða tóbak sem bjargráð
Sýnum samfélagslega ábyrgð og fylgjum fyrirmælum
Höldum áfram að læra og komum hlutum í verk
Gefum af okkur – sýnum góðvild og samkennd
Njótum augnabliksins – hér og nú
Heilræðin er að finna á vef Landlæknisembættisins og eru þau á ensku og pólsku auk íslensku.