Forsætisráðuneytið og Stígamót hafa gert samstarfssamning um framhald verkefnisins Sjúktspjall. Um er að ræða nafnlaust netspjall þar sem ungmenni á aldrinum 13-20 ára geta rætt við ráðgjafa Stígamóta um kynferðisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum.

Netspjallið opnaði í mars sl. og er hluti af verkefninu Sjúkást en markmiðið er að veita bæði þolendum og gerendum ofbeldis fræðslu og stuðning. Samkvæmt samningnum sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, undirrituðu í dag greiðir forsætisráðuneytið 12 milljónir króna vegna verkefnisins.

Samningurinn styður einnig við forvarnaráætlun meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og aðgerðaáætlun fyrir árin 2021-2025.

Forsíðumynd/Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta.
Mynd/aðsend