Ingibjörg Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar Fjallabyggðar hafi gengið til liðs við Attentus – mannauð og ráðgjöf og mun hún sinna alhliða mannauðs- og stjórnendaráðgjöf á Norðurlandi, með aðsetur á Siglufirði.
Ingibjörg er fyrsti ráðgjafinn hjá Attentus sem ekki hefur starfsstöð í Reykjavík og markar þetta því ákveðin tímamót hjá fyrirtækinu.
Ingibjörg hefur mikla reynslu af mannauðsmálum hér heima og í Þýskalandi. Hún var mannauðsstjóri líftæknifyrirtækisins Genis á Siglufirði frá árinu 2015 til 2018 og mannauðsstjóri hjá tónlistarhugbúnaðarfyrirtækinu Abelton í Berlín í fimm ár. Ingibjörg var áður sérfræðingur í stefnumótunarnefnd forsætisráðuneytisins um upplýsingasamfélagið og rafræna stjórnsýslu.
Ingibjörg lauk MSc námi í mannauðsstjórnun árið 2009 frá Háskóla Íslands, BA í stjórnmálafræði frá sama skóla árið 2006. Hún hefur nýlokið diplómanámi í jákvæðri sálfræði, einnig frá Háskóla Íslands.
Attentus veitir fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf um allt sem snýr að rekstri út frá á áherslum mannauðsstjórnunar. Fyrirtækið þróaði meðal annars viðskiptalausnina „mannauðsstjóri til leigu” og hlaut hvatningarverðlaun FKA fyrir árið 2012 og nýta fjölmörg fyrirtæki sér þá þjónustu. Hjá Attentus eru nú 11 starfsmenn, þar af átta ráðgjafar og tveir sérfræðingar, sem sinna verkefnum á þessu sviði.