Það er ávallt nóg um að vera í Hrísey og gerir Ásrún Ýr Gestsdóttir því góð skil með vikulegum pistlum á Hrísey.is.
Gaf hún Trölla.is góðfúslegt leyfi til þess að birta Föstudagsfréttir frá Hrísey.

Köld vika er að líða hér í Hrísey. Frostið hefur bitið eyru og gert kinnar rauðar síðustu daga og ekki virðist vera lát á. 

Um síðustu helgi voru tendruð ljósin á jólatréinu niðri á svæði og var vel mætt á þá skemmtielgu stund. Sungin voru jólalög og dansað í kringum tréið áður og svo farið inn í hlýjuna í Hríseyjarbúðinni þar sem drukkið var heitt súkkulaði og maulað á smákökum með. Er þetta alltaf jafn glaðleg og yndisleg stund hjá okkur í Hrísey.

Laugardagurinn var kaldur og fallegur. Foreldrafélag Hríseyjarskóla hélt sitt árlega jólaföndur í skólanum og mættu þar þrjár kynslóðir að föndra saman jólaskraut og jafnvel nokkrar jólagjafir. Nemendafélagið stóð vöffluvaktina og seldi ylvolgar vöfflur með rjóma og heitt súkkulaði. Aðventuhátíðin í Hríseyjarkirkju seinna sama dag var vel sótt. Börnin í Hríseyjarskóla gengu syngjandi inn kirkjugólfið í hvítum kirtlum með ljós í hendi og lásu um fæðingu Jesú milli söngva. Síðan stigu leikskólabörnin upp og sungu fyrir gesti, en sjá má myndband af þeirra söng á Facebooksíðunni okkar. Eftir stundina í Hríseyjarkirkju lá var gengið/ekið/dregið á sleða í kirkjugarðinn. Þar söng kór Hríseyjarkirkju og kveikt var á leiðarlýsingunni hjá fólkinu okkar sem þar hvílir. Hátíðleg og falleg stund sem við áttum þar saman.

Hríseyjarskóli stendur fyrir lestrarátaki þessa dagana og við hvetjum öll sem geta til þess að taka þar þátt. Eru börnin með regnboga þar sem hver hluti samfélagsins á sinn lit. Leikskólinn er rauður, eldri deild skólans er blá, foreldrar og aðrir íbúar eru appelsínugul og þegar síðast fréttist af regnboganum var það sá litur sem minnst var af í regnboganum! Hægt er að lesa um verkefnið á heimasíðu Hríseyjarskóla. 

Sundátakinu Syndum er lokið og í heildina voru syntir rúmlega 20 hringir í kringum Ísland. Náðum við í Hrísey að synda alla leið í innbæinn á Akureyri og er það vel gert miðað við hina sívinsælu höfðatölu.

Bæjarráð Akureyrarbæjar fjallaði um byggðakvóta handa Grímsey og Hrísey í vikunni þar sem engar breytingar eru gerðar á úthlutun og kvóta til Hríseyjar. Hægt er að lesa fundargerð bæjarráðs hér. 

Eins og þau sem fylgjast með viðburðadagatalinu hér á síðunni hafa tekið eftir, þá er nóg um að vera í Hrísey um helgina. Í kvöld renna pizzurnar ylvolgar og bragðgóðar úr Hríseyjarbúðinni og á morgun er að verða uppselt (mögulega orðið uppselt þegar þetta er ritað) á jólahlaðborð Verbúðarinnar. Í hádeginu á morgun, laugardag, er árlegi möndlugrautur Ferðamálafélagsins og er það einn fjölsóttasti grautardagur ársins! Enda, hver vill ekki vinna möndlugjöf. Á sunnudaginn er svo jólamarkaður í Verbúðinni sem hefst stundvíslega klukkan 14:00 og stendur til 17:00. Þar gefst fólki gott tækifæri til þess að finna sniðugar jólagjafir með Hríseyjar-tengingu. 

Það hefur ekkert verið gefið uppi hjá Þróunarfélagi Hríseyjar hverjir sitja í dómnefnd í jólaljósakeppninni í ár svo enn veit enginn að hverjum eigi að lauma smákökudallinum eða konfektinu. Keppnin er hörð þar sem íbúar og húseigendur hafa verið dugleg að skreyta fyrir þessi jól og eru sum að vinna með ,,skreytingar með frjálsri aðferð” sem eykur skemmtanagildið! Það eru þó ekki bara jólaljós sem verið er að setja upp heldur er kominn þessi fíni kastari á Sæborg sem lýsir upp nafnið á þessu gamla og sögufræga húsi. Ingimar Tryggvason var mættur um síðustu helgi að festa hann uppi og setja jólaljósin á sinn stað. Vel gert vinir Sæborgar!

Veðrið um helgina verður nú ekki mikið öðruvísi en í vikunni. Sólin mun skína á okkur og gera sitt besta til þess að ylja þann stutta tíma sem við höfum hana uppi. Hiti verður í kringum -7 gráður bæði laugar- og sunnudag og vindur um 3 m/s. Það er því fullkomið veður til þess að taka göngutúr um þorpið, skoða jólaljósin, skella sér svo í heita pottinn í sundlauginni og njóta aðventunnar.

Mynd/Hrísey.is