Nú er landsátaki ÍSÍ, Hjólað í vinnuna, lokið.

Stýrihópur um heilsueflandi Fjallabyggð efndi til keppni meðal vinnustaða innan Fjallabyggðar.

Innan sveitarfélagsins var keppt í þremur flokkum og keppt um fjölda daga pr. starfsmann sem hann notaði virkan ferðamáta í vinnuna. Nýttar voru upplýsingar úr landsátakinu Hjólað í vinnuna um virkni vinnustaða og byggðust úrslitin á þeim skráningum.

Því miður var minni þátttaka meðal stofnana og fyrirtækja í Fjallabyggð en stýrihópurinn reiknaði með, en þrjú fyrirtæki voru skráð og tvö þeirra tóku þátt í átakinu. Bæði voru þau í sama flokknum eða með 10-29 starfsmenn.

Það var Menntaskólinn á Tröllaskaga sem hafði betur gegn bæjarskrifstofu Fjallabyggðar.

Fjallabyggð óskar starfsmönnum MTR til hamingju með 1. sætið. 

Verðlaun fyrir 1. sæti er í formi gjafabréfs fyrir afnot af íþróttasal íþróttamiðstöðvar í 2 klst sem starfmannahópurinn getur nýtt fyrir hópefli eða aðra samveru. Á eftir samverunni getur hópurinn farið í sund í boði Fjallabyggðar.

Þórarinn Hannesson veitti gjafabréfinu viðtöku fyrir hönd starfsmanna MTR.