Mikil þátttaka hefur verið í barnastarfi Siglufjarðarkirkju og gróskumikið starf sem þar fer fram eins og Trölli.is greindi frá á dögunum.

Gróskumikið barnastarf Siglufjarðarkirkju

Trölla.is bárust ábendingar um jákvæðan póst til þeirra sem málið varðar og fékk góðfúslegt leyfi til að birta póstinn. Guðrún og fjölskylda hafa nýverið fest kaup á húsi við Hólaveginn á Siglufirði. Sjá má þessi jákvæðu hvetjandi ummæli um barnastarfið hér að neðan.

“Við keyptum hús á Siglufirði á vor-mánuðum og sjáum fyrir okkur að eyða miklum tíma á svæðinu þrátt fyrir að búa fyrir sunnan. Í morgun ákvað ég að skella mér í Sunnudagaskólann með 2 ára stelpuna okkar og bjóst við hefðbundinni dagskrá og því sem flestir þekkja. Þegar að ég mætti var ég fljót að átta mig á að þarna væri mikil ást og alúð lögð í dagskránna og ég hafði mjög gaman af því að fylgjast með bæði fullorðnum og börnum njóta samverunnar í kirkjunni. Eftir skemmtilega stund þar sem fullorðnir sem og börn sungu og dönsuðu lá leiðin á efri hæðina þar sem eitt flottasta kaffiboð sem ég hef séð beið allra sem á staðnum. 

Ég hef ekki getað hætt að tala um þessa frábæru stund sem við vorum þátttakendur í við fólk í dag og aldrei orðið vitni að jafn góðri mætingu. Þess vegna ákvað ég að senda smá póst.

Með þessum pósti vil ég fyrst og fremst hrósa þeim sem að þessari dagskrá standa fyrir frábært og að ég tel mikilvægt starf fyrir samfélagið. Sem sérfræðingur í Lýðheilsuvísindum sé ég þetta sem jákvæðan hlekk í bættri heilsu og vellíðan íbúa í sveitarfélaginu. Að hafa vettvang þar sem allir hafa jöfn tækifæri og aðgengi að hollum og góðum veitingum og heilsueflandi samveru er til fyrirmyndar og ættu fleiri sveitarfélög að taka ykkur til fyrirmyndar.

Þá má sérstaklega hrósa mæðginunum og prestinum fyrir notalegar móttökur og augljóst að í starfinu liggur mikill metnaður og elja.

Til hamingju með þetta starf.

Hlakka til að mæta aftur.

Bkv.

Guðrún Magnúsdóttir”

Kirkjuskólinn verður á sínum stað á morgun, sunnudag, frá kl. 11.15 til 12.45.