Ný skýrsla Samtaka iðnaðarins með 26 umbótatillögum sem efla samkeppnishæfni í grænni iðnbyltingu

Samtök iðnaðarins hafa gefið út nýja skýrslu þar sem lagðar eru fram 26 umbótatillögur sem öllum er ætlað að efla samkeppnishæfni í grænni iðnbyltingu og stuðla að framförum.

Með stöðugu, hagkvæmu og skilvirku starfsumhverfi fyrirtækja eykst geta hagkerfisins til þess að skapa verðmæti sem styðja við og bæta lífskjör í landinu í grænni framtíð.

Íslensk stjórnvöld hafa sett metnaðarfull markmið í umhverfis- og loftslagsmálum og munu þau varða leiðina til framtíðar fyrir íslenskt atvinnulíf. Starfsumhverfi fyrirtækja mun ráða miklu um það hvort markmið stjórnvalda náist en það þarf fjárfestingar og nýjar lausnir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Með stöðugu, hagkvæmu og skilvirku starfsumhverfi er líklegra að markmiðin náist.

Umbæturnar sem ráðast þarf í til að ná fram stöðugu starfsumhverfi snúa að opinberum fjármálum, peningamálum og vinnumarkaðsmálum.

Í skýrslunni kemur fram að mikilvægt sé að komandi kjarasamningar hafi það að markmiði að tryggja stöðugleika og varðveita þann árangur sem náðst hefur í að auka kaupmátt launa á síðustu árum. Til að ná fram hagkvæmu starfsumhverfi þarf að stilla álögum á fyrirtæki í hóf og beita efnahagslegum hvötum. Skilvirkt starfsumhverfi næst með því að einfalda regluverk og eftirlit.

Skýrslan byggir meðal annars á niðurstöðum úr nýrri könnun sem gerð var meðal stjórnenda íslenskra iðnfyrirtækja sem eru félagsmenn SI.

Innihald skýrslunnar var kynnt í streymi í gær – upptaka er hér neðar.

Dagskrá:

  • Ávarp – Árni Sigurjónsson, formaður SI
  • Græn iðnbylting er hafin – Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI
  • Stöðugt og hagkvæmt starfsumhverfi – Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI
  • Hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi – Björg Ásta Þórðardóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI

Hér er hægt að nálgast skýrsluna: https://www.si.is/upplysingar-og-utgafa/skyrslur-og-rit/stodugt-hagkvaemt-og-skilvirkt-starfsumhverfi

Upptaka: