Það er ávallt nóg um að vera í Hrísey og gerir Ásrún Ýr Gestsdóttir því góð skil með vikulegum pistlum á Hrísey.is.
Gaf hún Trölla.is góðfúslegt leyfi til þess að birta Föstudagsfréttir frá Hrísey.
Það eru níu dagar í jólin þennan ágæta en vindasama föstudag í Hrísey.
Veðrið datt úr hinum hefðbundna jólagír þegar tók að blása og hlýna í vikunni. Núna er nánast allur snjór farinn úr þorpinu og bara svell á köflum. Skiptist fólk í tvo flokka þessa dagana þar sem annar hópurinn vill fá snjóinn og hvítu jólin á meðan hinir þakka fyrir að geta geymt skófluna og broddana. Jólatréið okkar niðri á svæði fékk að finna fyrir því og fauk um koll í rokinu og einmanna plastpoki sem hefur náð að strjúka úr flokkunartunnu sveif í miklum ham um Austurveginn.
Um síðustu helgi var möndlugrautur Ferðamálafélagsins og eins og siður er var vel mætt. Voru það þau Tara Naomí Hermannsdóttir og Heimir Sigurgeirsson sem fengu möndlurnar (það eru tvær gerðir af möndlugraut og mandla í báðum). Við óskum þeim til hamingju með vinningana. Síðan var dásamlegt jólahlaðborð á Verbúðinni og fór enginn svangur heim þaðan. Ekki frekar en fyrri daginn. Var jólamarkaðurinn á sunnudeginum vel sóttur þar sem hægt var að versla ýmist hríseyskt handverk í jólapakkann. Seldar voru vöfflur og súkkulaði og óhætt er að segja að íbúar og gestir Hríseyjar þennan sunnudaginn hafi verið vöfflusvöng því þurfti að ræsa út í búðina til að fylla á veitingar! Það er svo gaman þegar við komum svona saman og er aðventan í Hrísey full af viðburðum, samveru og gleðistundum. Hér er sannarlega gott að búa.
Öllum eyjaskeggjum var boðið í útskriftarveislu á mánudeginum! Voru þau Olha og Evarist að útskrifast úr íslenskuskólanum með a1 próf. Hafa þau lagt mikla vinnu í að læra íslenskuna og við hvetjum ykkur til þess að spjalla við þau sem mest á íslensku svo þau haldi áfram að læra og æfa sig. Innilega til hamingju með þennan áfanga Olha og Evarist!
Þriðjudagurinn var bingó dagur þar sem hið árlega jólabingó Björgunarsveitar Hríseyjar/Slysavarnarfélagsins var haldið. Mættu börn og unglingar á sitt bingó seinni partinn þar sem sjá mátti spennu á mörgum andlitum og einstaka vonbrigðissvip þegar röng tala var lesin upp. Um kvöldið voru svo foreldrar, ömmur og afar mætt og sátu einbeitt að fylgjast með spjöldunum þar sem freistast var til þess að næla í jólamatinn í vinning.
Það kom fréttatilkynning frá Vegagerðinni þar sem tilkynnt var að hún muni taka yfir rekstur Hríseyjarferjunnar frá og með áramótum. Verður fyrirkomulagið sem við þekkjum og erum vön vera áfram til þess að byrja með en unnið er að því að setja upp bókunarkerfi. Verður þó enn hægt að mæta í ferjuna án þess að bóka fyrirfram svo við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Verður kerfið og allar breytingar sem gætu hugsanlega orðið, sem eru þó engar aðrar eins og er, kynnt vel fyrir okkur og við munum gera okkar besta hér á hrisey.is til þess að færa ykkur fréttir og halda öllum upplýstum.
Eins og flest hafa tekið eftir þá stendur mikið til niðri á hátíðarsvæði þessa dagana. Mögulega ákvað veðrið að vera með verktökunum í liði og þess vegna séu hlýindi og snjóleysi… En verið er að undirbúa gerð göngustígar yfir svæðið sem nær niður að ferjubryggju. Við fjölluðum um þessar framkvæmdir þegar skipulagsráð Akureyrarbæjar samþykkti að fara í þær fyrr í haust og er ánægjulegt að sjá að hafist er handa við verkið. Er hverfisráð Hríseyjar einn af drifkröftum þessa verkefnis og miðað við nýjustu fundargerð ráðsins (sem sjá má hér ) þá er alls ekki verið að slaka á þar.
Núna er þriðji í aðventu um helgina og er verkefni Þróunarfélagsins að dæma í jólaljósakeppninni ærið. Ljósum og skreytingum fer enn fjölgandi og er frábært að sjá hversu mörg hús eru upplýst. Enn hefur ekkert verið lekið hverjir sitja í dómnefndinni fyrir félagið svo ekki getum við gert heiðarlegar tilraunir til múturs.
Hríseyjarpizzur eru upplagður kvöldmatur í kvöld fyrir þau sem eru á haus í jólagjafainnpökkun eða að greiða úr jólasnúruflækjum. Það er svo ágætt að þurfa ekki að standa í eldhúsinu á sama tíma. Opið er á Verbúðinni á laugardagskvöldi svo það er hreinlega algjör óþarfi að snerta pott eða pönnu um helgina. Klukkan 21:00 hefst svo spilakvöld á Verbúðinni þar sem við komum saman með allskyns spil og höfum gaman. Hægt er að taka með spil að heiman, safna saman í vist fyrir þau sem það vilja eða grafa upp yfirleitt gagnslausa vitneskju í spurningaspilum.
Veður ýtir undir inniveru með um 10-12 m/s, hita í kringum frostmark og möguleika á bleytu. Það gefst þarna gullið tækifæri til þess að skella í eina sort enn, klára mandarínukassann eða horfa á góða jólamynd. Við vonum að þið eigið góða helgi og munið að njóta. Jólaandinn spyr ekki að því hvort eldhússkápurinn sé nýpússaður eða legókubburinn undir sófanum sé þar enn.