Föstudagurinn langi er í dag,15. apríl 2022.
Á vefsíðu Þjóðkirkjunnar segir að í dag sé sorgardagur í kirkjunni okkar. Föstudagurinn langi, dagurinn sem Jesús var krossfestur. Við minnumst á þessum degi hvernig mannkynið hafnaði Guði og lét deyða hann á krossi. Allt frá fæðingu Jesú má segja að skuggi krossins hafi fylgt honum – Jesús vissi hvað átti fyrir honum að liggja.
Hann kom með Guðs ríki á jörðina, birti dýrð þess með lífi sínu og starfi. Þegar hann græddi sjúka, reisti fallna, saddi svanga, sýndi hann Guð skaparann sem berst gegn böli, neyð og dauða. Hann sýndi að sköpun Guðs er góð, hrein og fullkomin og hann afneitar öllu því sem lýtir hana og brýtur niður. En það var ekki nóg að Jesús kæmi til að lifa, vinna og boða. Hann þurfti sjálfur að hverfa inn í myrkrið. Hann varð að deyja og ekki venjulegum dauðdaga. Hann varð að sæta dómi sem þýddi útskúfun úr samfélagi Guðs og manna. Og krossfestingin var álitin einmitt slíkur dauðdagi. Veikleikar og brestir mannskepnunnar skyldu opinberaðir – og það gerðist:. Menn slógu til hans, hræktu, hrópuðu að honum: Þú sem þykist hjálpa öðrum, hjálpaðu núna sjálfum þér, þú sem segist geta læknað sár, læknaðu þín eigin, þú sem segist vera sonur Guðs – sýndu það, þú segist vera lausnari en getur ekki leyst sjálfan þig. Guði var hafnað af mönnum. En þar með er sagan ekki öll. Maðurinn átti sem betur fer ekki síðasta orðið.
Krossinn, þetta skelfilega pyntingartæki fékk nýja merkingu. Krossinn snerist í sigur, þar var sigurinn unninn. Þess vegna er krossinn sigurtákn. Jesús Kristur var ekki undir vald manna settur, hann þekkir aðeins eitt raunverulegt vald: vald kærleikans. Og hvenær varð máttur kærleikans mestur? Einmitt þegar dýpst var farið, þegar mestu var fórnað – allt var gefið. Nákvæmlega það gerði Guð í Jesú Kristi krossfestum. Þar varð elska Guðs sterkust, þegar hún beygði sig dýpst, kafaði til botns í myrkrin í heimi manneskjunnar. Elska Guðs varð mest þegar hún tók á sig dauðann, til þess eins að skapa skilyrði til bata. Þess vegna er til von.
Guð vann sigur á Golgata. Hann segir: Ég gekk í dauðann fyrir þig til þess að taka þig til mín – upp til mín.
Enn er það svo í okkar heimi að dauðinn er okkar stærsti óvinur. Við vildum svo gjarnan vera án hans og sleppa við að sjá á eftir þeim sem okkur eru kær. Sjúkdómar, slys og náttúruhamfarir hrifsa með sér líf. Ungt fólk hverfur í myrkur fíknar, vímuefni sem slæva og sljógva og nú síðast heyrum við um spilafíkn sem dregur ungt fólk í dauðann. Við stöndum varnarlaus og sorgmædd hinumeginn við dauðamúrinn. Sú tilhugsun að þar með sé öllu lokið er ein sú skelfilegasta af öllum hugsunum. Henni fylgir kvíði og angist.
Þess skulum við horfa til krossins. Treysta því að Jesús sleppi ekki takinu af mér og þér, jafnvel þó að okkur hætti stundum til að gleyma honum. Að vita að án hans er okkur ómögulegt að komast í gegnum dauðamúrinn. Að halda virkilega fast. Að vita að sú ein er vonin og trúin að vegna kærleika hans til okkar, barnanna hans- verðum við dregin í gegnum opið á múrnum sem hinn krossfesti hefur opnað. Allt þetta er trú. Trú þar sem við hengjum okkur fast á Jesú í fullvissunni um að hann dregur okkur í gegnum dauðann. Við erum vanmáttug og smá – syndum hlaðin – þegar kemur að dauðanum, gegnum þann múr ferekkert okkar ótstudd. Hvar stendur þú þegar dauðinn mætir þér og þínum? Á hverju byggir þú líf þitt? Hvað verður haldreipi þitt þegar á reynir?
Krossinn er ekki svar við spurningum hlutlausrar hugsunar. Hann svarar þegar hjartað spyr um hjálp – þegar öll vera manns stendur nakin og óttaslegin frammi fyrir ógnum þessa heims. Hann svarar þeim sem finna til með öðrum og eru tilbúin að horfast í augu við eigin veikleika, eigin dauða. Hann svarar er við leitum til hans í bæn. Bænin getur verið fullmótuð hugsun, eða bara andvarp án orða. Svarið sem Jesús gefur er þetta: Þú átt krossinn minn, þú ert tekin inn í sáttmálann í mínu blóði, þar sem er fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp. Krossinn markaði ekki endalok heldur nýtt upphaf – líf með honum sem sigraði dauðann.
Það var Guð sem leið kvöl krossins í Jesú Kristi. Í skugganum frá krossinum fáum við að sjá og skynja Guð í myrkrahornum og öngstrætum mannlífsins. Okkur hættir svo oft til að bægja frá okkur öllu sem er óþægilegt og sárt, fela skuggahliðar lífsins og umfram allt dauðann. Okkur reynist erfitt að horfast í augu við það sem er erfitt og sárt og dimmt, bæði innra með okkur sjálfum og í heiminum. Það er ekki fyrr en við krjúpum, af hug og hjarta, við krossinn, sem leyndardómur kærleikans lýkst upp fyrir okkur.
Krossinn birtir Guð, sem er ljósið í myrkrinu, lífið í dauðanum. Hinn krossfesti hefur afmáð dauðann – ekkert fær fjötrað hann og ekkert bugað. Hann rís upp og reisir upp sérhvern þann sem á hann treystir. Þannig skulum við horfa til krossins nú á föstudeginum langa, við skulum dvelja við krossinn hans – ganga með honum leiðina á enda, uns við sameinumst öll í birtu upprisudagsins á páskadagsmorgun.