Leiksýningin Síldarstúlkur var flutt á Kaffi Rauðku á Siglufirði sunnudaginn 3. apríl.

“Það fjallar um minningar kvenna af síldarævintýrinu á Siglufirði” eins og segir í kynningu um leikritið – “og dregur fram í sviðsljósið upplifanir síldarstúlkna af kvennamenningu þessara ára, viðhorf þeirra til vinnu, fjölskyldulífs og félagslífs og hvernig tókst að uppfylla dagdraumana.”

Það er skemmst frá að segja að þetta tekst allt ljómandi vel og að leikritið er afbragðs skemmtun. Það er flutt af mikilli leikgleði og innlifun af leikkonunni Halldóru Guðjónsdóttur. Andrea Elín Vilhjálmsdóttir er í senn höfundur leiktexta ásamt Halldóru og annast leikstjórn. Þá er tónlistarflutningur Margrétar Arnardóttur, harmóníkuleikara, til að undirstrika stemminguna og auka fjörið og hressileikann. Sandra Rós Bryndísardóttir sér um sýningarkeyrslu. Allar eru þær, þessar ungu konur, menntaðar hver á sínu sviði.

Það er ekki annað hægt að segja en að víða sé komið við sögu og víða hafi verið leitað fanga til að að lýsa lífi síldarstúlkunnar í þessari skemmtilegu sýningu – og það læðist að manni einhver vissa um að með þessu verki ásamt leikritinu Síldin kemur og sýningum síldargengisins á Síldarminjasafninu sé að fullkomnast sú mynd af síldarstúlkunni að hún sé orðin nokkurs konar táknmynd hinnar sjálfstæðu og frjálsu konu.

Sjá nýlega umfjöllun á vef BBC: https://www.bbc

Og nýlega umfjöllun á Smithsonian Magazine:  https://www.smithsonianmag.com

Íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til að sjá næstu sýningar sem verða 16. og  24. apríl.

Á veitingastaðnum Sunnu á Sigló Hótel verður sérstakt tilboð fyrir leikhúsgesti þann 16. apríl, 3ja rétta kvöldverður á 7990,- kl. 18:00

Borðapantanir: info@sigloveitingar.is

Ljósmynd:  Margrét Arnardóttir harmoníkuleikari, Halldóra Guðjónsdóttir leikkona, Andrea Elín Vilhjálmsdóttir höfundur og leikstjóri, Sandra Rós Bryndísardóttir sér um sýningakeyrslu.

Veggspjald/auglýsing: Dóra Haraldsdóttir.


Texti: ÖK