Frá hlýjum tónum á sjúkrahúsinu til sameiginlegra stórtónleika í Bátahúsinu – Karlakór Fjallabyggðar og kór Langholtskirkju bjóða til ókeypis tónleika
Karlakór Fjallabyggðar hélt hlýlega og vel sótta tónleika á sjúkrahúsinu á Siglufirði miðvikudaginn 14. maí síðastliðinn. Tónleikarnir vöktu mikla ánægju meðal gesta, enda var salurinn þétt setinn og andrúmsloftið bæði notalegt og hátíðlegt.
Flutt voru fjölbreytt kórverk án undirleiks, eða a cappella, og tók efnisskráin mið af þeim tónleikum sem haldnir voru sunnudaginn 27. apríl í Siglufjarðarkirkju í tilefni af 25 ára starfsafmæli kórsins. Sungin voru lög sem hafa lifað með kórnum frá fyrstu árum og eiga sérstakan stað í hjörtum kórfélaga.
Sérlega ánægjulegt var að sjá fyrrverandi kórfélaga mæta og njóta flutningsins af hlýju og einlægni. Þar var slegið á létta strengi með bros á vör, og glensið lét ekki á sér standa, enda gamlir félagar sem kunnu til verka í kímninni.
Karlakór Fjallabyggðar hefur ekki enn lokið vordagskrá sinni, því næstkomandi laugardag, 24. maí, mun hann sameinast kór Langholtskirkju í glæsilegum tónleikum í Bátahúsinu við Síldarminjasafnið á Siglufirði. Tónleikarnir hefjast klukkan 18:00 og er aðgangur ókeypis. Gestir mega eiga von á eftirminnilegri tónlistarupplifun í sögulegu og einstöku umhverfi safnsins.
Mynd/aðsend