Í gær þann 28. apríl var haldinn stofnfundur Fræðafélags Siglufjarðar.

Tilgangur félagsins er að fjalla um fræðileg málefni og málefni líðandi stundar sem snerta samfélagið í sinni smæstu og stærstu mynd. Lögð verður áhersla á að öll umfjöllun sé hlutlæg og hafin yfir ríkjandi stjórnmálaskoðanir.

Fræðafélagið hyggst standa að  reglubundnum fræðafundum og fyrirlestrum í Fjallabyggð sem stuðlað geta að upplýstri umræðu og aukinni þekkingu um málefni sem snerta okkur öll.

Stofnfélagar Fræðafélags Siglufjarðar eru þau Aníta Elefsen, Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir, Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir, Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir og Stefán Már Stefánsson.

Félagið er opið öllum einstaklingum og ekki eru innheimt félagsgjöld.  Þeir sem hafa áhuga á að ganga í félagið eða að fá nánari upplýsingar er bent á að hafa samband við Brynju með því að senda póst á netfangið brynjah66@gmail.com eða í síma 692-4697.