Nýlega gaf bókaútgáfan Skriða á Hvammstanga út fyrstu tvær bækurnar, og var því fagnað með útgáfuteiti í Holti menningarsetri á Hvammstanga.

Birta Þórhallsdóttir er sjálf höfundur annarrar bókarinnar sem er safn stuttra prósa og heitir Einsamræður. Bókin á rætur að rekja til meistaranáms Birtu í ritlist auk þess sem hún fékk á sínum tíma nýræktarstyrk Íslenskrar bókmenntamiðstöðvar fyrir handritið.

Hin bókin sem fagnað var á menningarsetrinu Holti var ljóðabókin Vínbláar varir eftir Sigurbjörgu Friðriksdóttur.

Birta Þórhallsdóttir les upp úr bók sinni

 

Bækurnar eru mjög áþekkar í útliti en Birta vill að bækur forlagsins minni á skissubók sem skuli vísa til ákveðins hráleika innihaldsins. Birta viðurkennir að nokkuð sé um liðið síðan hún lauk endanlega við Einsamveru. Það hafi hins vegar verið henni mikilvægt að koma þessari bók frá til þess að geta haldið áfram. Sögurnar eru úr ýmsum áttum, sumar eru skrifaðar á Hvammstanga, aðrar á ferðalagi höfundar um Mexíkó og enn aðrar hafa yfirbragð þjóðlegra frásagna og minna sumar á ævintýri.

Sigurbjörg Friðriksdóttir hafði lengi vel ekki hugmynd um að ljóðið væri hennar form en svo kom það einfaldlega til hennar og árið 2016 kom ljóðabók hennar Gáttatif út hjá Meðgönguljóðum. Ljóð Sigurbjargar eru knöpp, þau fæðast hratt en eru síðan lögð til hliðar og tálguð. Þetta eru ljóð um ást, samskipti, sorg og hversdagsleika. Sigurbjörg vill ekki viðurkenna að ljóð hennar séu persónuleg, þau komi einfaldlega og hún bætir við kankvís, „eins og það sé ort í gegnum mig.“

 

.

 

Fjöldin allur af gestum mættu til að fagna með bóka útgefendunum

Spunavefur

björt augu þín
daðrandi tunga
mjúkur faðmur

gljáfægðir draumar

myrk augu þín
niðrandi tunga
harður hnefi

blóðrispaðar martraðir

Skriða hyggst gefa út fleiri bækur og í farvatninu eru ljóðabók og að minnsta kosti tvær þýðingar önnur úr spænsku og hin úr rússnesku.

 

Skriða lét sér fátt um finnast og malaði yfir öllu tilstandinu

 

Myndir inni í frétt úr einkasafni

Facebook síða Skriðu bókaútgáfu