Verðlagseftirlit ASÍ hefur kannað verð á þriggja laga einnota andlitsgrímum í hinum ýmsu verslunum, netverslunum, matvöruverslunum og apótekum svo eitthvað sé nefnt.

Úrval og framboð af andlitsgrímum er mjög misjafnt milli verslana og mikill verðmunur er á slíkum andlitsgrímum. Lægsta stykkjaverðið í könnuninni var að finna í Krambúðinni, 49 kr. stk. en það næst lægsta í Costco, 56 kr. stk eða 2.809 kr. fyrir pakka með 50 grímum.
Hæsta stykkjaverðið var í Eirberg, 298 kr. gríman eða 5.950 kr. fyrir pakka með 20 grímum.

Grímurnar sem voru til skoðunar í könnuninni voru allar þriggja laga og einnota en eru ekki endilega alveg eins þar sem þær koma frá mismunandi framleiðendum. Gæðamunur getur því verið á grímum hjá þeim söluaðilum sem könnunin nær til. Ekki er lagt mat á gæði á þeim grímum sem birtast í könnuninni þar sem einungis þar til bærir sérfræðingar geta skorið úr um hvort gæði gríma sé fullnægjandi.

Neytendastofa hefur tekið fjölda gríma úr umferð
Vert er að taka fram að Neytendastofa sér um eftirlit með andlitsgrímum og hefur stofnunin orðið vör við að gæðum á andlitsgrímum sé í sumum tilfellum ábótavant og hefur töluvert magn af grímum verið tekið úr umferð vegna þess. Þar að auki er talsvert af þeim grímum sem eru til sölu ekki CE vottaðar og þá hafa CE merkingar í sumum tilfellum verið falsaðar og geta neytendur sent Neytendastofu ábendingu ef þeir verða varir við slíkt.

Þessi verðkönnun gefur innsýn inn í verð og framboð á þriggja laga einnota andlitsgrímum á markaðnum í dag. Verð og framboð á andlitsgrímum breytist þó ört og hvetjum við fólk til að fylgjast vel með, m.a. inn á hópi Verðlagseftirlits ASÍ „Vertu á verði“ en þar geta neytendur skráð niður upplýsingar um verð á andlitsgrímum og fylgst þannig með markaðnum.
Neytendur séu vakandi fyrir misjöfnum gæðum á grímum og fari eftir ráðleggingum stjórnvalda hvað varðar notkun þeirra
Neytendur eru hvattir til að vera vakandi fyrir misjöfnum gæðum á einnota sem og fjölnota andlitsgrímum sem eru á markaði auk þess að vera meðvitaðir um notkun þeirra og meðhöndlun til að þær geri gagn.

Neytendur eru einnig hvattir til að fara eftir ráðleggingum stjórnvalda sem mæla ekki með almennri notkun á andlitsgrímum nema í þeim tilfellum sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð og hafa í huga að notkun andlitsgríma gagnast aðeins ef regluleg handhreinsun er stunduð líka. Nánari upplýsingar um notkun andlitsgríma má finna á vef landlæknis

Fjölnota tauandlitsgrímur geta verið ódýrari kostur þurfi fólk að notast mikið við andlitsgrímur
Kostnaður við einnota andlitsgrímur er fljótur að safnast upp í háar fjárhæðir ef fólk þarf að nota þær mikið yfir daginn vegna vinnu eða notar margar á dag vegna ferða sinna, t.d. með strætó. Í slíkum tilfellum getur borgað sig að nota fjölnota andlitsgrímur, hvort sem maður kaupir þær eða býr til sjálfur. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir gæðum á keyptum andlitsgrímum og fara eftir þeim leiðbeiningum sem hafa verið gefnar út varðandi gerð heimatilbúinna gríma.

Ráðleggingar við gerð margnota tauandlitsgríma
Í ráðleggingum vinnuhóps Evrópusambandsins um gerð andlitsgríma sem finna má á vef Landlæknis segir að nauðsynlegt sé að andlitsgrímur séu úr að minnsta kosti úr tveimur lögum af efni (helst þremur), passi vel á andlitið og hylji það vel. Rannsóknir sýna að bómull sé gott efni til að nota í fjölnota andlitsgrímur. Ef maður ætlar sér að búa til grímu sjálfur er t.d. hægt að nota þéttofið bómullarefni og á milli ysta og innsta lags hafa lag (eða tvö) af þykkara efni. Mikilvægt er að tryggja að auðvelt sé að anda með grímuna á sér og að það sé hægt að þvo grímuna. Þá er nauðsynlegt að þvo taugrímur a.m.k. einu sinni á dag, helst við 60 gráður á celsíus.

Það sem er ráðlagt að gera:
– Notaðu þétt efni
– Hafðu tvö eða þrjú lög af efni (má vera sama efni eða mismunandi)
– Notaðu efni sem hleypir lofti auðveldlega í gegn þegar er andað í gegnum það
– Notaðu efni sem eru mjúk og sveigjanleg sem falla að og hylja andlitið
– Notaðu efni sem eru ekki of heit
– Notaðu mjúk efni sem valda ekki pirringi í húðinni
– Þvoðu efnið áður en þú klippir það niður til notkunar á amk 60 gráðum

Það sem er ráðlagt að gera ekki:
– Ekki nota efni sem eru þunn og létt
– Ekki nota einungis eitt lag af efni
– Ekki nota hefti til að festa efnið saman
– Ekki nota efni sem erfitt er að anda í gegnum
– Ekki nota efni sem eru of stíf og er ekki hægt að festa og þétt að andlitinu
– Ekki nota efni sem er of heitt og getur valdið óþægindum
– Ekki nota efni sem valda pirringi í húðinni
– Ekki gera lóðrétta sauma meðfram nefi, munni og höku
– Ekki nota ryksugupoka, einangrunarefni notað í byggingariðnaði, bleyjur o.s.frv. við gerð andlitsgríma
– Ekki nota efni sem hafa mögulega verið meðhöndluð með skaðlegum efnum

Nánari ráðleggingar frá vinnuhópi Evrópusambandsins um gerð fjölnota andlitsgríma

Á síðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) má einnig finna myndbönd og upplýsingar með ráðleggingum um notkun og gerð einnota og fjölnota andlitsgríma

Um könnunina
Kannað var verð á einnota þriggja laga andlitsgrímum hjá eftirtöldum söluaðilum: Costco, Krambúðinni Laugalæk, Fjarðarkaupum, Bónus, Krónunni, Nettó, Hagkaupum, Lyf og heilsu, Lyfju, Lyfsalanum, Lyfjavali, Reykjavíkurapóteki, Apótekaranum, Múlalundi, Partývörum, Wurth, LedTec.is, Pollyanna.is, Flugubullan.is, Smartsocks.is, Varnir.is, Málningarvörum, , Emobi.is, Smart Boutique, Eirberg, Kemi.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Könnunin er ekki tæmandi og getur verið að hún nái ekki til allra þeirra aðila á markaði sem selja andlitsgrímur.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.