Nemendur MTR og tíunda bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar fengu í gær góða heimsókn frá Geðfræðslufélaginu Hugrúnu sem hvetur til opinnar umræðu um geðheilbrigðismál og andlega líðan.

Góð geðheilsa skiptir alla máli og er undirstaða þess að njóta sín í daglegu lífi.

Hún veitir ákveðið jafnvægi en tryggir ekki stöðuga gleði og hamingju. Í fyrirlestrinum var lögð áhersla á hina heilögu þrenningu, svefn, næringu og hreyfingu ásamt meðvitund um líðan og tilfinningar.

Nemendur fengu góð ráð um hvert þeir geti leitað í vanda auk upplýsinga um hvernig hægt er að stuðla að góðri geðheilsu vina og vandamanna.

Að meðaltali lendir fólk í um þrjátíu atburðum um ævina sem geta haft afgerandi áhrif, svo sem ástvinamissi, sambandsslitum, slysi, greinist með sjúkdóm o.s.frv.

Geðheilsa er samofin annarri heilsu. Fólk fer á heilsugæslu eða sjúkrahús ef það meiðir sig, verður lasið eða lendir í slysi. Á sama hátt er rétt að leita strax til fagfólks ef geðheilsan versnar. 

Af vefsíðu Menntaskólans á Tröllaskaga MTR