Fræðsla um rafhlaupahjól og notkun þeirra:
Með hækkandi sól er farið að bera meira á börnum á hjólum og rafhlaupahjólum.
Við fögnum því að sjá fleiri á ferðinni og erum við hjá lögreglunni ánægð að sjá að flest allir nota hlífðarhjálma. Mikil aukning hefur orðið í notkun rafhlaupahjóla og langar okkur hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra að benda á frábært fræðsluefni sem Samgöngustofa gaf út um notkun þeirra (sjá https://www.samgongustofa.is/rafmagnshlaupahjol/ )
Við viljum hvetja foreldra og forráðmenn til að fara yfir reglur um rafhlaupahjól með börnunum sínum. Mikilvægt er að allir fari að settum reglum til að lágmarka alla slysahættu.
Hér koma nokkrir punktar sem vert er að hafa í huga:
- Samkvæmt umferðarlögum eru engin aldurstakmörk á vélknúin hlaupahjól en alltaf skal fara eftir þeim viðmiðum um aldurstakmark sem framleiðendur hjólanna leggja til.
- Börnum yngri en 16 ára ber að nota hlífðarhjálm á rafhlaupahjólum, einnig er mælt með að fullorðnir noti hjálma enda mikilvægur öryggisbúnaður fyrir alla.
- Ekki má vera með farþega á rafhlaupahjóli.
- Ekki má vera á rafhlaupahjóli á akbraut, nota á gangstéttir eða hjólastíga.
- Það má hjóla yfir gangbraut en það er mikilvægt að hægja vel á sér og gæta að allri umferð bæði hjá akandi og gangandi.
- Gangandi vegfarendur á gangstéttum eiga forgang en mikilvægt er að hægja vel á sér þegar farið er framhjá þeim.
- Notkun snjalltækja og farsíma er bönnuð á hjólum samkvæmt umferðarlögum.
- Mikilvægt er að hafa góð ljós á hjólunum, sérstaklega þegar skyggja tekur.
- Rafhlaupahjólum má ekki breyta svo þau fari hraðar en 25 km/klst.
Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur betur upplýsingar um rafhlaupahjól á vef Samgöngustofu.
Lögreglan á Norðurlandi eystra.
Mynd: aðsend