Nordplusverkefni Menntaskólans á Tröllaskaga og tveggja framhaldskóla í Eistlandi og Lettlandi var formlega ýtt úr vör í gær.

Nemendur úr skólunum þremur munu skoða sameiginlega fleti í menningu og umhverfi og æfa sig í fjarvinnslu milli landa. Skólameistararnir þrír hittust og hittu nemendur MTR í morgun og var atburðinum streymt á síðu verkefnisins.

Hópur MTR-nema vinnur að þessu verkefni alla miðannarvikuna en samstarfið við nemendur í Eistlandi og Lettlandi heldur áfram á næsta skólaári, vonandi í formi nemendaheimsókna.

Markmiðið er að nemendur öðlist þjálfun í að safna og vinna úr upplýsingum með mismunandi aðferðum og miðla efni lipurlega á milli landa í alþjóðlegu samstarfi. Fjarvinna og samstarf af þessu tagi hefur tekið stórt stökk á covidtímanum og mun bara halda áfram að aukast þannig að það er nauðsynlegt fyrir nemendur að undirbúa sig fyrir slíkt vinnuumhverfi.

Kennarar í miðannaráfanganum þar sem grunnurinn verður lagður í þessu fjölþjóðlega verkefni eru þau Áslaug Inga Barðadóttir, Ida Semey og Tryggvi Hróflsson. 

Sjá fleiri Myndir

Myndir/Gísli Kristinsson