Bæjarráð Fjallabyggðar hefur tekið fyrir bréf frá Skógræktarfélagi Ólafsfjarðar sem sent var sviðsstjóra skipulags- og framkvæmdasviðs. Í bréfinu kemur fram að hafist hafi verið handa við lagningu útivistarbrautar í gegnum svæði félagsins.

Sviðsstjóri skipulags- og framkvæmdasviðs hefur bent á að leyfi liggi ekki fyrir vegna stígagerðarinnar og að ekkert samráð hafi verið haft við sveitarfélagið um framkvæmdina. Í svari sviðsstjóra kemur jafnframt fram að sérstaklega þurfi að huga að aurflóðahættu á svæðinu.

Bæjarráð furðaði sig á því að ráðist hafi verið í framkvæmdir án samráðs eða heimilda og fól sviðsstjóra að stöðva þær þar til liggur fyrir úttekt á heildarverkefninu. Í þeirri úttekt á meðal annars að fjalla um hættu af völdum vatnsflóða og afla álits Veðurstofu Íslands og annarra hlutaðeigandi aðila.

Mynd/Skógræktarfélag Ólafsfjarðar