Íbúum í umdæmi Heilbrigðisstofnunar Austurlands hefur verið tryggt aðgengi að þjónustu bæklunarlækna og þvagfæraskurðlækna með samningum stofnunarinnar við Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítalann. Heilbrigðisráðuneytið hefur veitt stofnuninni 15 milljónir króna til að standa straum af samningunum í eitt ár.

Fáir sérgreinalæknar starfa utan höfuðborgarsvæðisins og hafa heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni reynt að mæta þörf fyrir þjónustu þeirra með verktakasamningum við einstaka lækna. Þetta fyrirkomulag hefur reynst stofnununum kostnaðarsamt og hvorki vel til þess fallið að tryggja þjónustu sérgreinalækna í samræmi við þjónustuþörf á viðkomandi svæði né mikilvæga samfellu í þjónustu við sjúklinga.

Gæti orðið fyrirmynd

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir vonir bundnar við að tilraunaverkefnið við Heilbrigðisstofnun Austurlands geti orðið fyrirmynd að sambærilegum samningum um allt land til að jafna aðgengi landsmanna að margvíslegri þjónustu sérgreinalækna. „Aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu er afar mismunandi eftir heilbrigðisumdæmum og þarna er verið að þróa leið sem gæti reynst vel til að auka jöfnuð hvað þetta varðar. Nýja sjúkrahótelið við Landspítalann er einnig mikilvægur þáttur í þessari viðleitni þegar fólk þarf á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu að halda sem ekki er unnt að veita í héraði“ segir Svandís.

Á vegum heilbrigðisráðuneytisins er unnið að því að greina hvaða þjónustu er æskilegt að veita á heilbrigðisstofnunum um land allt og hvernig megi best tryggja aðgengi sjúklinga að þeirri þjónustu. Endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir en horft er til þess að með samráði og samvinnu milli heilbrigðisstofnana megi bæta aðgengi sjúklinga að heilbrigðisþjónustu sem mætir fjölbreyttum þörfum þeirra. Um þetta er fjallað í málefnasviði fjárlaga nr. 23 (sjúkrahúsþjónusta) þar sem sett er fram það markmið að auka aðgang að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á sjúkrasviðum heilbrigðisstofnana meðal annars með samningum þeirra á milli. Gert er ráð fyrir að hlutverk Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri verði skilgreind þannig að það verði liður í þjónustu þeirra að sjá heilbrigðisstofnunum landsins fyrir þjónustu sérgreinalækna á grundvelli samvinnu og samninga.

 

Af stjornarradid.is