Starfshópur sem heilbrigðisráðherra fól að gera tillögur að framtíðarskipulagi sjúkraflutninga á Íslandi í samræmi við heilbrigðisstefnu til ársins 2030 hefur skilað ráðherra niðurstöðum sínum. Meginniðurstaða hópsins er að umsjón með sjúkraflutningum á landinu öllu þurfi að vera á einni hendi. Lagt er til að sett verði á fót miðstöð bráðaþjónustu og sjúkraflutninga (MBS) sem hafi víðtækt hlutverk með það að markmiði að samræma þjónustuna, veita faglegan stuðning, annast þjálfun og þróun fagstétta á þessu sviði og sinna gæðaeftirliti.

Hópnum var samkvæmt skipunarbréfi falið að gera tillögur sem snúa að mönnun, menntun, þjálfun og endurmenntun þeirra sem sinna sjúkraflutningum, fjalla um þjónustuviðmið, gæðamælikvarða og eftirlit með sjúkraflutningum og einnig um faglegan stuðning með notkun fjarheilbrigðistækni. Eins skyldi hann endurskoða greiðslufyrirkomulag vegna sjúkraflutninga til samræmis við markmið þjónustunnar.

Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum í tveimur skýrslum. Annars vegar er skýrsla sem dregur upp framtíðarsýn hópsins í bráðaþjónustu og sjúkraflutningum með hliðsjón af markmiðum heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Hins vegar er skýrsla með ýtarlegri umfjöllun um megintillögu hópsins varðandi MBS, þ.e. um skipulag miðstöðvarinnar, hlutverk og helstu verkefni. Þar fylgja jafnframt drög starfshópsins að þjónustuviðmiðum sem lagt er til að verði lögð til grundvallar að skipulagi bráðaþjónustu og sjúkraflutninga. Viðmiðin taka til þátta eins og viðbragðstíma, þjálfunar mannskaps, tækjabúnaðar og lyfja, sérhæfðrar meðferðar og tíma þar til komið er á sérhæft sjúkrahús. Segir í skýrslu hópsins að með slíkum viðmiðum væri lagður grundvöllur að samræmdri þjónustu fyrir alla landsmenn.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir verulegan feng í tillögum starfshópsins og greinilegt að mikil vinna og faglegur metnaður liggi að baki: „Það er líka mikið í húfi. Vel skipulagðir, skilvirk og öruggir sjúkraflutningar eru einn af hornsteinum heilbrigðisþjónustunnar. Þeir eru jafnframt afgerandi þáttur í því að tryggja íbúum í dreifðum byggðum landsins sem greiðastan aðgang að heilbrigðisþjónustu og stuðla þannig að auknum jöfnuði óháð búsetu“ segir heilbrigðisráðherra.

Tillögur starfshópsins verða nú rýndar í heilbrigðisráðuneytinu og niðurstaðan kynnt fyrir ríkisstjórn til ákvörðunar um framhald málsins.

 

Af: stjornarradid.is