Kaffibrennslan Korg í Skagafirði er framúrskarandi verkefni á sviði atvinnu og nýsköpunar 2023.

Vala Stefánsdóttir og Rannveig Einarsdóttir hljóta viðurkenninguna fyrir kaffibrennsluna Korg fyrir framleiðslu á kaffi. Uppbygging er hafin á kaffibrennslu á Páfastöðum 2 í Skagafirði en kaffibrennslan Korg hefur það markmið að flytja inn ferskar kaffibaunir í háum gæðum og auka þannig úrval af gæða kaffi á Íslandi, sérstaklega á Norðurlandi vestra. Með því að rista kaffið vandlega og frekar ljóst eru dregnir fram náttúrulegir og fjölbreyttir bragðtónar í kaffið. Þannig feta þær í fótspor smábrugghúsa með uppbyggingu sem styður við kaffimenningu, nýjungar í framleiðslu, aukið framboð á gæðakaffi ásamt fræðslu og fjölbreyttum námskeiðum sem tengjast kaffi.  

Það er óhætt að fullyrða að vel var tekið á móti starfsfólki SSNV sem fór í heimsókn á Páfastaði 2. Vala bauð þar upp á nýmalað kaffi þar sem hún vígði aðstöðuna. Hellt var upp á tvær tegundir en kaffið var einstaklega bragðgott og rann bollinn ljúft niður í þessu notalega umhverfi.

Á myndinni má sjá Völu og Rannveigu eigendur kaffibrennslunnar Korg ásamt Katrínu M. Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra SSNV og Guðlaugi Skúlasyni, atvinnuráðgjafa hjá SSNV standa fyrir framan brennsluofninn þeirra. Við þökkum Völu og Rannveigu kærlega fyrir okkur. 

Við viljum benda á nýja samfélagsmiðla hjá kaffibrennslunni Korg þar sem hægt er að fylgjast með framhaldinu hjá þessu metnaðarfulla verkefni.

Facebook: https://www.facebook.com/profile.php?id=61556445369367

Instagram: @kaffikorg