Alþjóðleg brúðulistahátíð og Sölubíll smáframleiðanda valin framúrskarandi verkefni á Norðurlandi vestra á árinu 2020
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) velja árlega framúrskarandi verkefni á sviði menningarmála annars vegar og atvinnuþróunar og nýsköpunar hins vegar. Í ár hljóta verkefnin Hvammstangi International Puppetry festival og Sölubíll smáframleiðenda á Norðurlandi vestra viðurkenningarnar.
Kallað var eftir tilnefningum til verkefnanna meðal íbúa í landshlutanum og bárust fjölmargar. Stjórn SSNV ákvað á fundi sínum þann 12. janúar 2021 að veita eftirfarandi verkefnum viðurkenningar:
Á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar: Vörusmiðja Biopol fyrir Sölubíl smáframleiðenda á Norðurlandi vestra. Verkefnið er allt í senn, sameiningarafl fyrir smáframleiðendur, aukin þjónusta við viðskiptavini þeirra og nýstárleg og góð lausn á markaðssetningu og sölu afurða beint frá býli. Verkefnið styður við smáframleiðendur á því sviði þar sem þekkingu þeirra margra skortir og er í takt við markmið Sóknaráætlunar landshlutans um aukið virði afurða sem og sölu vara beint frá býli. Sölubíllinn hefur vakið jákvæða og verðskuldaða athygli á svæðinu sem er eitt mesta matvælahérað landsins og er mikilvægur þáttur í áframhaldandi atvinnuþróun og uppbyggingu þess.
Á sviði menningarmála: Handbendi brúðuleikhús fyrir brúðulistahátíðina Hvammstangi International Puppetry Festival. Frá stofnun hefur brúðuleikhúsið Handbendi vakið jákvæða athygli á landshlutanum fyrir metnaðarfull og vönduð menningarverkefni sem farið hafa víða, innanlands sem utan. Brúðulistahátíðin sem haldin var í fyrsta skipti í október 2020 var þar engin undantekning. Að halda alþjóðlega brúðulistahátíð á Norðurlandi vestra hefði alltaf verið ærið verkefni en að gera það á glæstan hátt í heimsfaraldri er listrænt og framkvæmdarlegt afrek. Verkefnið er listamönnum í landshlutanum hvatning til að láta ekkert stoppa sig í að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd og er brúðuleikhúsið Handbendi mikilvægur þáttur í menningarlífi landshlutans.