Þó að múrbrot sé ekki meðal kennslugreina í Menntaskólanum á Tröllaskaga, MTR, voru nokkrir nemendur mættir til slíkra starfa eldsnemma morguns í síðustu viku.

Þetta er fjáröflun fyrir menningarferð til London sem fyrirhuguð er um miðjan október. Tíu nemendur í tveimur áföngum í skapandi tónlist fara í ferðina; sönghópur sem nýnemar skipa að miklu leyti og strákar á þriðja ári sem eru komnir langt í tónlistinni.

Þetta verður vikuferð þar sem fræðst verður um tónlistarlífið. M.a. verður farið á söngleik, tónlistarsafn skoðað og litið á Royal Albert Hall.

Katrín Ýr Óskarsdóttir tónlistarkennari skólans skipuleggur ferðina en hún býr í London og er starfandi tónlistarmaður þar og því öllum hnútum kunnug. Katrín Ýr kennir einnig við London College of Music sem er skóli innan University of West London. Hópurinn heimsækir skólann sem verður vafalaust fróðlegt því þar stunda 17 þúsund nemendur nám og því talsverður munur frá MTR.

“En það er fleira á döfinni, okkar fólk spilar á tónleikum með nemendum í London College of Music og hafa reyndar verið í samstarfi við þau yfir netið og einnig verður tekið upp lag í hljóðveri skólans. Það verður því mikilvæg reynsla sem okkar nemendur fá í ferðinni og ekki síst að kynnast þeim alþjóðlega tónlistarheimi sem verður sífellt stærri með hraðari fjarskiptum og betri tækni.”

Krakkarnir kosta ferðina sjálf en eru í fjáröflun eins og fyrr segir. Ef einhver vill styrkja þau til fararinnar má hafa samband við skólann.

Forsíðumynd: LS – Múrbrot í Pálshúsi